Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að samþykkt hafi verið á ríkisstjórnarfundi, sem var að ljúka, að kalla þing saman á morgun klukkan 15 vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í kjaradeilu Flugvirkjafélags Íslands við Icelandair.
Frumvarp hennar um að grípa til aðgerða var samþykkt í ríkisstjórn en Hanna Birna segir að ríkisstjórnin vonist enn til þess að samningar náist á milli viðsemjenda fyrir þann tíma.
„Við vonum enn að deilan leysist og samningsaðilar axli þá ábyrgð að klára samninga sín á milli. Að ganga til slíkrar lagasetningar er, líkt og ég hef áður sagt, algjört neyðarúræði og aðeins réttlætanlegt þegar í húfi eru miklir almannahagsmunir. Þannig er staðan klárlega núna, en það breytir engu um það að það er að mínu mati einnig algjörlega óviðunandi að svona staða sé ítrekað að koma upp að löggjafinn þurfi að hafa afskipti af kjaraviðræðum einnar starfstéttar við eitt fyrirtæki. Sú þróun gefur klárlega tilefni til að skoða þessa lagaumgjörðina sem við búum við og heimildir ríkissáttasemjara,“ segir innanríkisráðherra.
Hún segir að ríkisstjórnin telji að ef grípa þurfi til lagasetningar standist það klárlega lög enda sé um svo brýna almannahagsmuni að ræða. Hagsmunir séu einfaldleg það miklir fyrir einstaklinga, atvinnulíf og samfélagið allt, segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.