Langt umfram það sem aðrir fengu

Þorkell Þorkelsson

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir ómögulegt að segja til um hvernig hefði farið ef ekki hefði komið til lagasetningar, en þing verður kallað saman til að setja lög á verkfall Flugvirkjafélags Íslands.

„Ég get varla verið bjartsýnn,“ sagði hann um fund hjá ríkissáttasemjara í dag. „Kröfur flugvirkja eru langt umfram það sem aðrir starfsmenn Icelandair hafa samið um,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is.

„Við erum mjög ósáttir. Maður hlýtur að spyrja sig hvort alþingismenn séu tilbúnir að taka þátt í þessu trekk í trekk, því það leikur vafi á lögmæti ráðstöfunarinnar. Við munum leita réttar okkar alla leið ef af þessu verður,“ sagði Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndar Flugvirkjafélags Íslands, í samtali við mbl.is.

„Ég sé ekki að við séum að gera samninga lengur á frjálsum markaði. Það er búið að taka þann rétt af okkur, beint eða óbeint.“

Eins og fram hefur komið verða sett lög á fyr­ir­hugað verk­fall flug­virkja, sem hugðust leggja ótíma­bundið niður störf frá og með fimmtu­deg­in­um, 19. júní. Maríus fékk boð þess efn­is í símtali frá innanríkisráðherra í morg­un. „Ég virði það við hann að láta okkur vita en ráðstöfunin er í okkar huga ólögleg engu að síður.“

Maríus tók hins vegar fram að flugvirkjar hygðust ekki brjóta lög sjálfir. „Við spilum eftir reglunum. Ef Alþingi samþykkir lagasetninguna mætum við til vinnu.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert