Hafið, fjallabláminn, vötnin eða himininn. Það eru skiptar skoðanir um hvað blái liturinn í íslenska þjóðfánanum á að tákna og hvergi stendur hið sanna skrifað. Hver má hafa sína skoðun, þó virðist enginn efi vera uppi um að rauði liturinn tákni eldinn í iðrum landsins og sá hvíti ísinn.
Hörður Lárusson, grafískur hönnuður og fánasérfræðingur, segir að það sé lítið skjalfest um hönnun fánans, túlkun á litunum þremur í honum sé aðeins rómantík sem við höfum búið til.
„Eina sem er fyrir víst er það sem fánanefndin 1914 sagði og hún lýsti því aldrei fyrir hvað litirnir eiga að standa. Hins vegar sagði hún hvernig litirnir eiga að vera og er sá blái heiðblár sem vísar í himininn,“ segir Hörður en hann er á þeirri skoðun að blái liturinn í þjóðfánanum standi fyrir himinblámann.