Fjölmennasta útskrift HÍ frá upphafi

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Ómar Óskarsson

Alls taka 2065 kandídatar við brautskráningarskírteinum sínum í grunn- og framhaldsnámi frá Háskóla Íslands á morgun. Þetta er mesti fjöldi sem brautskráður hefur verið frá skólanum frá stofnun hans.

Líkt og undanfarin ár verða brautskráningarathafnirnar tvær, en þær fara fram í Laugardalshöll. Á þeirri fyrri, sem hefst kl. 10.30, fer fram brautskráning kandídata sem eru að ljúka framhaldsnámi að loknu grunnnámi, þ.e. diplóma- og viðbótarnámi á framhaldsstigi, meistaranámi og kandídatsnámi. Samkvæmt tilkynningu frá Háskóla Íslands verða alls 777 kandídatar brautskráðir úr framhaldsnámi með 780 próf.

Markar tímamót

Við athöfnina verða þau tímamót að fyrstu kandídatarnir í nýju leikskóla- og grunnskólakennaranámi brautskrást með M.Ed.-gráðu frá Háskóla Íslands eftir fimm ára samfellt nám. Námið var lengt í kjölfar lagabreytingar og standa Íslendingar nú jafnfætis nágrannalöndunum í þessu tilliti. Meistaragráðan veitir hinum nýútskrifuðu réttindi til að sækja um leyfisbréf leik- eða grunnskólakennara. Við athöfnina brautskrást einnig fyrstu nemendurnir með meistarapróf í listfræði frá Háskóla Íslands og geta þeir þá kallað sig listfræðinga.

Tæplega 500 útskrifuðust í febrúar

Á seinni athöfninni, sem hefst kl. 14, fer fram brautskráning kandídata sem eru að ljúka grunnnámi, þ.e. BA-, B.Ed.- og BS-námi. Samtals brautskrást 1288 kandídatar  úr grunnnámi með 1292 próf.

Samkvæmt tilkynningu verða prófskírteini afhent í röð eftir fræðasviðum. Á félagsvísindasviði verða samtals afhent 689 prófskírteini, 464 á heilbrigðisvísindasviði, 261 á hugvísindasviði, 339 á menntavísindasviði og 319 á verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Þess má geta að Háskóli Íslands brautskráði 456 kandídata í febrúar og því hafa ríflega 2500 kandídatar útskrifast frá skólanum á árinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert