Um 70% þeirra framhaldsskólanema sem innritast á almennar brautir og um 55% þeirra sem innritast á starfsnámsbrautir hafa ekki lokið námi sex árum eftir innskráningu. Þetta kemur fram í hvítbók Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um umbætur í menntun.
Ísland sker sig úr hópi helstu samanburðarlanda í því hversu fáir ljúka námi úr framhaldsskóla á tilskildum tíma. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu ljúka einungis um 44% þeirra sem innritast í framhaldsskóla námi á skilgreindum námstíma.
Tveimur árum síðar höfðu einungis 58% útskrifast. Könnuð voru afdrif 4.161 íslensks nemanda sem innritaðist í framhaldsskóla árið 2007. Könnunin sýndi að námsframvinda er mjög mismunandi eftir því hvaða námsbraut nemandinn velur sér.
Um 27% nemenda innritaðist á almennar brautir, en á almenna braut innritast yfirleitt þeir nemendur sem uppfylla ekki kröfu um inntöku á aðrar brautir framhaldsskóla.
Þá innrituðust 60% nemenda á stúdentsnámsbrautir sem lýkur með stúdentsprófi og 14% á starfsnámsbrautir. Slíkar brautir veita undirbúning fyrir störf, s.s. í iðn- eða heilbrigðisgreinum, og fela yfirleitt í sér verklega þjálfun. Innan Evrópusambandsins innritast um 50% nemenda á starfsnámsbrautir.