„Náttúrupassinn gekk ekki upp“

Vatnshellir - Menn eru ekki sammála um hvort bera megi …
Vatnshellir - Menn eru ekki sammála um hvort bera megi saman starfsemina þar og innheimtu gjalds í Reykjahlíð. Helgi Bjarnason

„Þetta kemur þeim bara ekkert við,“ sagði Ólafur H. Jónsson, talsmaður landeigendafélagsins við Reykjahlíð, aðspurður um áskorun sem Ferðamálasamtök Íslands gáfu frá sér gegn gjaldtöku á ferðamannastöðum, í samtali við mbl.is. „Hvers vegna eru þessi samtök og SAF (Samtök ferðaþjónustunnar) í svona ofboðslegum áróðri gegn gjaldtöku hjá þeim sem eiga náttúruperlur þegar þeir borga ekki sjálfir krónu til náttúrunnar?

Ólafur tekur fram að aðeins tveir kostir hafi staðið til boða: Að landeigendur lokuðu ferðamannasvæðunum við Reykjahlíð eða gripu til eigin ráða, en gjaldtaka er hafin inn á vissa ferðamannastaði í Reykjahlíð eins og áður hefur komið fram. Landeigendur hafi reynt að hlusta og bíða eftir fyrirhuguðum ferðamannapassa frá stjórnvöldum en ekkert hafi bólað á honum. „Náttúrupassinn gekk ekki upp.“

Ólafur telur að ástæðan fyrir andstöðu frá Ferðamálasamtökum liggi í hagsmunum innan ferðaþjónustunnar. „Ég hef aldrei skilið hvers vegna samtök í ferðaþjónustunni eigi að koma nálægt ákvörðunarvaldi um náttúruperlur. Þessi afskiptasemi lýsir einkahagsmunahugsunarhætti. Þeir borga ekki krónu til náttúrunnar en vilja ekki að sé skert af eigin álagningu. Þeir vilja ekki að þetta snerti þeirra innviði.“

Menn í sömu deild spili á sömu hljóðfæri

Ólafur telur að um ákveðna mismunun sé að ræða. 

„Ferðaþjónustan er í 7% virðisaukaskattsumhverfi en kaupir sínar rekstrarvörur með 25% virðisaukaskatti og fær margar milljónir endurgreiddar árlega. Af þeim pening, þ.e. mismun á innskatti og útskatti, fer ekki króna til uppbyggingar á náttúruperlum þrátt fyrir að þeir fái pening til baka af vöru sem kúnninn kaupir af þeim.“

Ólafur spyr sig hvers vegna opinberir aðilar megi innheimta gjald en landeigendur ekki. „Skatturinn hefur ákveðið að miðasala okkar sé skattskyld. Við lítum svo á að við séum í sama umhverfi og t.d. Silfra og Vatnshellir, þar sem opinberir aðilar standa fyrir rukkun. Hver er munurinn á opinberum aðila sem á land og einkaaðila sem á land? Eiga ekki menn í sömu deild að spila á sömu hljóðfæri?“ 

Aðgangur að Hverum í Reykjahlíð, Mývatnssveit kostar 800 kr. fyrir 18 ára og eldri sem og aðgangur að Leirhnúkum eins og sjá má á síðunni natturugjald.is.

Ekki hægt að bera saman

Þór Magnússon, einn af eigendum Hellaferða, sem rekur ferðaþjónustu við Vatnshelli, segir hinsvegar að ekki sé hægt að stilla þessu hlið við hlið. Vatnshellir í Snæfellsjökulsþjóðgarði er í opinberri eigu en Hellaferðir rekur sína starfsemi í einkaeign eftir að rekstur þar var boðinn út af ríkinu, en sú starfsemi er ekki virðisaukaskattskyld.

„Þetta er ekki eins og að rukka bara fyrir að labba um í náttúrunni. Ferðirnar hér eru undir strangri leiðsögn sem við reynum að hafa bæði fræðandi og skemmtilega. Við bjóðum gestum ýmsan öryggisbúnað, notumst við stærðarinnar ljós í ferðum okkar og þjálfað leiðsögufólk sér um að sýna gestum hellinn. Það klikkar ekki að fólk kemur ánægt og brosandi út,“ sagði Þór.

Aðgangur og leiðsögn um Vatnshelli hjá Hellaferðum kostar 2500 kr. fyrir fullorðinn einstakling. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert