Ráðist hefur verið á starfsfólk Landsbankans á leið til vinnu og skríll komið saman í garði við hús bankastjórans. Þetta segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, í viðtali sem birt er á Huffington Post. Hann segist einnig hafa fengið fjölda andstyggilegra símtala og tölvubréfa.
Steinþór rifjar upp í viðtalinu þegar hann tók við starfi Landsbankans á árinu 2010 og segir að starfsandinn hafi þá verið í lágmarki. „Starfsfólk var bugað. Margir skömmuðust sín svo mikið fyrir að vinna í banka að þeir slitu sambandi við fjölskyldu og vini. Þá kom fyrir að ráðist var á starfsfólk á leið til vinnu.“
Þá er haft eftir honum að eftir efnahagshrunið haustið 2008 hafi þjóðin sameinast í hatri á fólki sem starfaði í viðskiptalífinu, ekki síst forstjórum. „Markaðurinn hrundi. Atvinnuleysi jókst. Fyrirtæki stóðu á brauðfótum ef þau féllu ekki. Þeir sem héldu starfi sínu þurftu að sætta sig við launalækkun. Á sama tíma lækkaði húsnæðisverð og lánin hækkuðu þegar gjaldmiðillinn hrundi og verðbólgan skaust upp. Allir - almenningur, fjölmiðlar, stjórnmálamenn - voru ævareiðir.“
Í viðtalinu er því slegið föstu að Steinþór hafi ýmislegt þurft að þola í starfi bankastjóra Landsbankans. „Ég fékk fjöldann allan af andstyggilegum símtölum og tölvubréfum. Það var þó ekki svo slæmt og jafnvel viðbúið. En reiðir einstaklingar réðust á starfsfólk fyrir utan bankann og dúkkuðu upp við heimili mitt. Þegar það gerist og fjölskyldu þinni er ógnað þá er það erfitt.“