„Það er mikilvægt að við skilgreinum hvar styrkur okkar liggur, hvaða viðfangsefni eru brýnust í okkar eigin samfélagi og hvar við getum lagt af mörkum til alþjóðasamfélagsins,“ sagði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, meðal annars í ræðu sinni við brautskráningu kandídata sem fram fór í Laugardalshöll í dag.
Nefndi hún í því sambandi meðal annars rannsóknir og þekkingu á hafinu sem skipti grundvallarmáli fyrir íslenskt efnahagslíf. Rannsóknir sem gerðar hefðu verið við Háskóla Íslands bentu til þess að þar væru mikilvægar breytingar að eiga sér stað sem gætu haft skaðleg áhrif á fiskistofna og aðrar auðlindir. Sömuleiðis nefndi hún rannsóknir til að greina tækifæri sem skapast til matvælaframleiðslu. Það skipti máli bæði fyrir íslenskt samfélag og í stærra samhengi enda væri talið að matvælaframleiðsla í heiminum þyrfti að aukast um 60-70% á næstu áratugum.
„Ég nefni verkefni á sviðum félagsvísinda. Vesturlandabúar hafa byggt upp öflug velferðarkerfi. Langflest þessara ríkja standa frammi fyrir vanda sem lýtur að því að finna jafnvægi milli þess hlutverks sem ríkisvaldinu er ætlað og þeirra tekna sem ríkið innheimtir. Mörg ríki standa frammi fyrir sprengingu í fjölda eldri borgara á sama tíma og fækkar hlutfallslega í hópi þeirra sem leggja til efnahagslífsins og standa undir velferðarkerfinu,“ sagði hún ennfremur.
Skilar 5 milljörðum króna í gjaldeyristekjur
Sömuleiðis nefndi hún einnig mikilvægi þess að nýta þann styrk sem náðst hefði í líf- og heilbrigðisvísindum hér á landi til að leggja enn meira af mörkum til baráttu gegn sjúkdómum, fjölónæmum bakteríum og öðrum heilsufarsógnum. Sterk staða Háskóla Íslands á ýmsum sviðum líf- og heilbrigðisvísinda hefði verið staðfest með alþjóðlegum mælikvörðum og samanburðarúttektum.
Þá vakti hún athygli á því að starfsemi Háskóla Íslands skilaði þjóðarbúinu árlega ríflega fimm milljörðum króna í gjaldeyristekjur. Það væri þó varlega áætlað. Tekjurnar kæmu til vegna erlendra styrkja til vísindaverkefna, vegna alþjóðlegs ráðstefnuhalds og vegna þjónustu við erlenda stúdenta og fjölskyldur þeirra.
„Tækifærin sem okkur eru sköpuð leggja okkur líka ábyrgð á herðar. Upplýsingatæknin, sem hefur opnað nýjar víddir, er jafnframt vandmeðfarin. Hugsið ykkur tvisvar um áður en þið „lækið“ við færslur í samskiptamiðlum sem geta valdið alvarlegri vanlíðan annarra. Hafið hugrekki til að stíga fram ef þið sjáið merki um óábyrga hegðun, standið ekki aðgerðarlaus hjá.“