„Tvö feit læri, tvö lítil brjóst og nóg af vinstri vængjum.“ Þannig hljómaði slagorð gegn Hillary Rodham Clinton, þar sem henni var stillt upp sem tilboði á djúpsteiktum kjúkling, þegar hún átti fyrst kvenna raunhæfan möguleika á því að verða forseti Bandaríkjanna árið 2008.
Fjölmiðlar fjalla að mörgu leyti á mismunandi hátt um kvenkyns og karlkyns frambjóðendur, alltént í Bandaríkjunum, en íslenskir fjölmiðlar eru ekki lausir við þetta heldur. Hillary Clinton er þekktasta konan í bandarískum stjórnmálum og því valdi Berglind Jónsdóttir, stjórnmálafræðingur, að beina sjónum að henni í lokaritgerð sinni við Háskóla Íslands, þar sem hún rannsakar orðræðu fjölmiðla um Clinton.
Berglind komst að þeirri niðurstöðu að Clinton hafi mátt sæta því mikið væri fjallað um útlit hennar, aldur og samfélagshlutverk hennar sem kona. Auk þess að þótt fjölmiðlaumfjöllun um Clinton hafi lítið breyst frá því hún hóf stjórnmálaferilinn, (enn er mikið fjallað um „karllæga“ eiginleika hennar), þá virðist kjósendur síður móttækilegir fyrir slíkri kynjaslagsíðu nú en áður, sem Berglind rekur m.a. til útbreiðslu samfélagsmiðla og betri fjölmiðlalæsis.
Þess má geta að Berglind fékk 9 í einkunn fyrir ritgerðina, en hún útskrifaðist í gær.
„Ég fékk nú eiginlega smá sjokk þegar ég byrjaði að skoða málið. Þetta var grófara en ég hélt og margt sem kom mér á óvart að væri hreinlega talið í lagi að skrifa um,“ segir Berglind í samtali við mbl.is. Ritgerðarefnið ákvað hún eftir að hafa horft á heimildamyndina Miss Representation, sem fjallar um birtingarmyndir kvenna í bandarískum fjölmiðlum.
Í gegnum tíðina hafa kvenkyns frambjóðendur fengið spurningar sem karlar í sömu stöðu þurfa ekki að svara, oftar en ekki um eitthvað sem beinist að útliti þeirra, hárgreiðslu, klæðaburð, líkamsþyngd og einkalífi. Berglind bendir á að vandamálið sé þó kannski fyrst og fremst það að á móti sé síður fjallað um áherslur og baráttumál stjórnmálakvenna- en karla.
Sem dæmi um Hillary Clinton, örfá af mörgum, má nefna að í kosningabaráttunni 2008 birti New York Times umfjöllun um hversu oft í mánuði Clinton-hjónin svæfu í sama rúmi og þegar Hillary Clinton kom í sömu viku fram í blússu með v-hálsmáli í þinginu hljóp hver fjölmiðilinn á fætur öðrum til og skrifaði um barminn á henni. Lítið var rætt um málefnið sem Clinton ræddi, á meðan hún var í blússunni, en frekar velt upp hvenær hún hefði síðast klæðst einhverju sem gæti talist kynþokkafullt.
Nokkrum dögum síðar fóru fram kappræður milli forsetaframbjóðenda demókrata, þar sem John Edwards sagðist „dást að því sem hún og eiginmaður hennar hefðu gert fyrir Bandaríkin“ en að hann væri ekki viss um jakkann hennar. Barack Obama kom þá Clinton til varnar, með því að segjast ekki sjá neitt að jakkanum. Þetta var í fyrsta sinn sem rætt var um klæðnað eins frambjóðenda í miðjum kappræðum til forsetakjörs.
Berglind bendir á að svo virðist sem styttra sé upp undir glerþakið í bandarískum stjórnmálum en t.d. í viðskiptalífinu, þar sem þróunin hefur verið jákvæðari. Konur eru innan við 1/5 þingmanna samanlagt á fulltrúadeild- og öldungadeild þingsins, og hafa þó aldrei verið fleiri.
Stærsta glerþakið virðist liggja yfir Hvíta húsinu, því Bandaríkin eru eitt fárra vestrænna ríkja þar sem kona hefur aldrei gegnt æðsta embættinu. Hillary Clinton komst hinsvegar nær því árið 2008 en nokkur kona áður, og enn þykir hún líklegust til þess að takast það.
Clinton hefur sjálf enn ekki ákveðið hvort hún taki slaginn að nýju, en stuðningsmenn hennar eru þegar farnir að kynda undir kosningabaráttu. Eftir að hafa stúderað hana undanfarna mánuði virðist Berglind sjálf orðin ein þeirra. „Mér finnst ég nánast hafa kynnst henni í gegnum þessi skrif. Mér finnst hún svo mögnuð kona og bara dáist að henni, því hún hefur staðið af sér mikinn mótvind og komið út sem ótrúlega sterkur karakter og sterk kvenfyrirmynd. Ég held hún gæti unnið ef hún færi fram núna, það virðist vera jarðvegur fyrir því,“ segir Berglind.
Í Gallup könnun sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2006 sagðist aðeins um helmingur almennings telja að bandaríska þjóðin væri „tilbúin“ til þess að fá konu í embætti forseta. 92% sögðust þó geta hugsað sér að kjósa konu. Árið 2013 sýndi hinsvegar sambærileg könnun að 86% telja að Bandaríkin væru tilbúin fyrir kvenkyns forseta. Berglind segir magnað að sjá slíka þróun á 7 árum.
Ekki er ólíklegt að Hillary Clinton hafi haft eitthvað með þá hugarfarsbreytingu að gera. Um leið sýnir þetta þó að kynin standa engan vegin jafnfætis, á meðan ekki þykir 100% jafnsjálfsagt að konur jafnt sem karlar gegni slíku embætti.
Clinton hefur verið mikið milli tannanna á fólki allt frá því hún kom fyrst fram á sjónarsviðið við hlið eiginmanns síns. Segja mætti að hún hafi aldrei uppfyllt staðalmynd hinnar „styðjandi eiginkonu“ heldur unnið á eigin forsendum. Þegar þau gengu í hjónaband árið 1975 hélt hún t.d. eigin eftirnafni, Rodham, en tæpum áratug síðar þegar Bill Clinton varð ríkisstjóri Arkansas heyrðist að það væri nú varla við hæfi að ríkisstjórafrúin bæri ekki eftirnafn eiginmannsins. Úr varð að hún tók upp Clinton nafnið.
Berglind segir að strax þarna hafi heyrst gagnrýniraddir sem beindust að Hillary Clinton sem sterkri konu og femínista. Síðar varð hún fyrsta forsetafrú Bandaríkjanna með framhaldsgráðu úr háskóla og farsælan starfsferil sem meðeigandi lögmannsstofu, en almenningur tók henni hikandi frá upphafi. Virðist ímynd hennar sem sterk og sjálfstæð kona hafi verið ógnandi gagnvart stórum hluta bandarískra hjóna, þar sem starfsferill eiginmannsins var settur í forgang á meðan konan sá um að hugsa um heimilið.
Sjálf sagðist Clinton eitt sinn í viðtali ekki vilja vera eins og konan í vinsælu lagi Tammy Wynette, „Stand by your man“. Þau ummæli fengu ekki góðar undirtektir almennings, að sögn Berglindar.
Það kaldhæðnislega er að í gegnum árin gengu vinsældir Hillary Clinton sem forsetafrúar í bylgjum, en þegar upp komst um framhjáhald eiginmanns hennar mældist hún í kjölfarið mun vinsælli en áður meðal almennings. Fjölmiðlar höfðu gjarnan fjallað um hana sem hrokafulla og of karllæga, að sögn Berglindar, en í Monicu Lewinsky-hneykslinu var dregin upp mynd af henni sem varnarlausu fórnarlambi, og naut hún þá stuðnings 65% þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum.
Berglind bendir þó á að varnarleysi sé ekki ákjósanlegasti eiginleikinn fyrir þing- eða forsetaframbjóðanda. Ári eftir framhjáhaldshneykslið bauð Hillary Clinton sig fram til öldungadeildar Bandaríkjaþings og virðist hafa verið fljót að hrista þá fórnarlambsímyndina af sér.
Þegar hún tilkynnti forsetaframboð sitt fyrir hönd Demókrataflokksins, eftir 6 ára þingmennsku, hafði staða kynjanna í stjórnmálum jafnast að ýmsu leyti, en staðalmyndir voru engu að síður áberandi í fjölmiðlum að sögn Berglindar og mátti Clinton þola talsvert verri útreið en keppinautar hennar.
Hún var oft sögð tíkarleg, jafnvel kölluð tík beint út. Mikið var fjallað um læri hennar, ökkla og buxnadragtirnar sem hún klæddist. Fjallað var um hárgreiðslu hennar í fjölmiðlum, með þeim orðum að pólitískar skoðanir hennar væru líklega ekki áreiðanlegar fyrst hún gæti ekki einu sinni ákveðið hvaða hárgreiðslu hún vildi hafa.
Ýjað var að því að hún væri lesbísk, hún sögð kaldlynd og talað um að hún gæti ekki fullnægt eiginmanni sínum fyrst hann leitaði til annarra kvenna. Berglind segir að þar sem Hillary Clinton gekk að ýmsu leyti gegn staðalmyndum kvenna í Bandaríkjunum hafi hún kannski verið auðveldara skotmark fyrir fjölmiðla en karlarnir í framboði.
Svo virðist hinsvegar sem Clinton og starfslið hennar í kosningabaráttunni hafi ákveðið að leggja áherslu á að kyngera hana sem minnst. Eftir á, þegar hún hafði tapað forkjörinu fyrir Barack Obama, fannst mörgum sem hún hefði mátt leggja meiri áherslu á mikilvægi þess að hún gæti orðið fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna. En Clinton virðist ekki hafa viljað leggja kynjaspilið á borðið, hugsanlega til að forðast umræðu um að hún fengi aðeins kosningu fyrir að vera kona, en ekki vegna verðleika sinna.
„Margir töldu það mistök hjá henni að notfæra sér ekki kynið og það er eitthvað sem ég held hún hljóti að íhuga núna, ef hún fer aftur fram, sem ég vona að hún geri og mér finnst fjölmiðlar vera að kynda undir,“ segir Berglind.
„Ég held að áður hafi hún meira þurft að sanna að þótt hún væri kona gæti hún gert allt sem karlar geta og hafi sett sig meira í karlahlutverk. Núna er umræðan búin að breytast aðeins og ég held það væri sterkara að nýta sér það að hún er kona og þarf ekki að reyna að vera neitt annað.“
Sem utanríkisráðherra í forsetatíð Baracks Obama naut Hillary Clinton meiri vinsælda almennings en nokkru sinni fyrr, og fékk meiri frið frá fjölmiðlum. Hún er nú ítrekað orðuð við forsetaslaginn 2016. Berglind hefur til samanburðar skoðað orðræðu fjölmiðla í tengslum við það og segir að hún sé að mörgu leyti áþekk.
Núna sé því t.d. velt upp hvort Clinton sé orðin of gömul, þótt karlforsetar hafi áður verið eldri en hún, og sömuleiðis mikið gert úr því að hún sé að verða amma. Berglind telur ólíklegt að ófætt barnabarn karlkyns frambjóðanda fengi eins mikla umfjöllun, eða hvort sú spurning myndi yfirhöfuð vakna að barnið hefði áhrif á ákvörðun um forsetaframboð.
Engu að síður virðist sem kynjapólitíkin hafi breyst í Bandaríkjunum á þeim 6 árum sem liðin eru síðan Clinton bauð sig síðast fram. Berglind bendir á umfjöllun dagblaðsins Valley News, frá febrúar 2014, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að ólíklegt sé að kynjamismunun fjölmiðla muni ná sömu hæðum aftur, gefi Clinton kost á sér.
Berglind kemst að þeirri niðurstöðu að það sé m.a. vegna samfélagsmiðla, sem voru nýtilkomnir 2008 en hafa margfaldast síðan. Þar hafi feminísk áhrif reynst mikil. Með auknu valdi almennings virðist völd fréttamiðla hafa dregist örlítið saman. „Það virðist sem að fólk hafi fjölbreyttari vettvang og öflugri tæki til að vera gagnrýnið á fjölmiðla og opinbera umræðu og fólk horfir gagnrýnni augum á hvernig fjölmiðlar setja hlutina fram,“ segir Berglind.
Þegar Hillary Clinton tapaði fyrir Obama í forkosningunni 2008 flutti hún þakkarræðu til stuðningsmanna sinna, þar sem hún sagði að þrátt fyrir að þeim hafi ekki tekist að brjóta hið ósýnilega glerþak, þá hafi þeim tekist að kom 18 milljón sprungum í það og í gegnum þessar sprungur skíni vonarljós. Vísaði hún þannig til þess að hún fékk 18 milljón atkvæði í kosningunum.
Eftir á að koma í ljós hvort það verður Hillary Clinton sjálf sem mölvar glerþakið yfir Hvíta húsinu, en hvort sem hún gefur aftur kost á sér til forseta eða ekki verður vart um það deilt að hún hefur rutt braut sem óskandi er að fleiri konur fylgi eftir. Berglind, sem hyggur á framhaldsnám í stjórnmálafræði og alþjóðasamskiptum, segist fylgjast spennt með því hvenær Clinton gerir upp hug sinn, og hvernig umræðan verður í kjölfarið.
Hér að neðan má sjá samansafn að umfjöllunum bandarískra fjölmiðla um Hillary Clinton: