Eftir þriggja ára nám í íslensku við Háskóla Íslands fannst hinni serbnesku Önu Stanicevic hún vera komin með nægilega gott vald á tungumálinu til þess að vinda sér í þýðingu á íslensku ritverki yfir á móðurmálið. Fyrir valinu varð Mánasteinn, skáldsaga Sjóns sem kom út í fyrra.
Ana er 29 ára gömul og kynntist ritverkum Sjóns í gegnum Skuggabaldur sem fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2005 en hún er eina bók höfundarins sem gefin hefur verið út á serbnesku. „Ég ákvað eftir lestur bókarinnar að einn daginn myndi ég gefa út verk eftir Sjón á serbnesku,“ segir Ana. Hún segir Mánastein hafa gripið sig frá fyrsta orði. „Bókin er svo súrrealísk og í henni leikur höfundurinn sér að þemum á borð við vampírur og sögu samkynhneigðra í Reykjavík árið 1918,“ segir Ana.
Hún segir að frá unga aldri hafi hún hrifist af Norðurlöndum og þá sérstaklega Íslandi vegna þess hve einangrað landið er. „Svo er tungumálið svo upprunalegt og flókið. Mér þykir svo skemmtilegt að takast á við hluti sem eru erfiðir,“ segir Ana. Hún segir að sér hafi gengið vel að ná tökum á íslensku. „Það er mjög mikilvægt að vera ekki hræddur við að gera mistök og tala íslensku við Íslendinga. Maður á að vera ákveðinn frá byrjun að tala við fólk. Jafnvel þótt fólk skipti yfir í ensku. Ég hef alltaf neitað að tala ensku við Íslendinga,“ segir Ana ákveðin. Hún hefur hug á því að þýða verk eftir fleiri Íslendinga og næst langar hana að þýða verk eftir Dag Hjartarson.
Hún hefur trú á því að íslenskar bókmenntir geti kveikt áhuga á Íslandi í Serbíu. „Ég sé fyrir mér að fólk gæti haft áhuga á Íslandi, því landið er svo framandi. Eyjamenningin er öðruvísi en sú sem við á meginlandinu erum vön. Það er svo margt á Íslandi sem ég hef ekki fundið annars staðar. Til að mynda er tónlistarsenan mögnuð, svo til allir virðast hafa tóneyra. Eins finnst mér bókmenntirnar frábærar.“
Spurð hvort Íslendingar hafi einhverja galla nefnir hún tvennt. „Ef ég á að vera mjög hreinskilin finnst mér samskipti oft óvenjuleg. Þá helst þegar kemur að ástamálum. Eins finnst mér djammmenningin undarleg,“ segir Ana og hlær.