Ómar Stefánsson, sem verið hefur oddviti framsóknarmanna í Kópavogi um árabil, hefur sagt sig úr Framsóknarflokknum. Hann segir að ástæðan sé „þjóðernispopúlismi sem þrífst innan Framsóknarflokksins“. Ómar ætlar að taka sér frí frá stjórnmálum.
Á fréttavefnum Kópavogsfréttum segir að hafi Ómar áður tilkynnt að hann ætlaði í fjögurra ára frí frá stjórnmálaþátttöku. Á félagsfundi framsóknarmanna í Kópavogi nýlega tilkynnti hann svo að hann hefði sagt sig úr Framsóknarflokknum. „Ástæðan er sá þjóðernispopúlismi sem þrífst innan Framsóknarflokksins sem ég á enga samleið með,“ segir Ómar í samtali við Kópavogsfréttir.