Skoða forsetann og framsal ríkisvalds

Sigurður Líndal lagaprófessor.
Sigurður Líndal lagaprófessor. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tvennt er einkum til skoðunar varðandi breytingar á stjórnarskránni: kaflinn um forsetaembættið og ákvæði um framsal á ríkisvaldi að norskri fyrirmynd. Heildarendurskoðun sé ekki á dagskrá. Þetta segir Sigurður Líndal lagaprófessor en hann fer fyrir þverpólitískri nefnd sem sett var á laggirnar í nóvember síðastliðnum með það að markmiði að vinna tillögur að mögulegum breytingum á stjórnarskránni. 

Sjálfur sé Sigurður þeirrar skoðunar að breyta eigi sem minnstu í stjórnarskránni og ekki öðru en nauðsynlegt sé að breyta. Þeirri skoðun hafi hann ítrekað lýst. Fram hefur komið að til standi að birta áfangaskýrslu um vinnu stjórnarskrárnefndarinnar til þessa og segir Sigurður að hugmyndin sé að boða til blaðamannafundar í þeim efnum á næstunni. Aðspurður hvenær fundurinn fari fram segir hann að það liggi ekki endanlega fyrir og eigi eftir að ræða innan nefndarinnar.

Skipun stjórnarskrárnefndarinnar var í samræmi við samkomulag þingflokka frá því 2. júlí um það með hvaða hætti yrði staðið að stjórnarskrárbreytingum á kjörtímabilinu. Var lagt fyrir nefndina að hafa til hliðsjónar þá vinnu sem fram hefði farið í þessum efnum á undanförnum árum. Þar á meðal tillögur stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðis og stjórnarskrárnefndar sem starfaði á árunum 2005-2007; sömuleiðis nýlegar stjórnarskrárbreytingar í nágrannalöndum sem og aðra þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi.

Markmiðið er að stjórnarskrárnefndin ljúki vinnu sinni tímanlega til þess að hægt verði að leggja fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili. Þó er gert ráð fyrir því að mögulegt verði að áfangaskipta vinnu nefndarinnar eftir því sem hentar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert