Lá í blóði sínu og allir gengu hjá

Það var þó maður skammt frá á hjóli sem hafði …
Það var þó maður skammt frá á hjóli sem hafði greinilega stoppað til þess að horfa á atburðinn og ég kallaði eins og ég gat á þennan mann. Maðurinn horfði í áttina á mér, snéri sér við og hjólaði í burtu eins og ekkert hafði gerst. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tilkynnt um líkamsárás í Vonarstræti á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Sá sem varð fyrir árásinni beið eftir strætisvagni á biðstöð strætó þegar árásarmaður kemur þar að og biður þann fyrri um strætómiða.  

Sá sem varð fyrir árásinni sagðist ekki eiga strætómiða þar sem hann notaði kort.  Árásarmaðurinn slær hann þá þrjú högg í andlitið og hljóp í burtu. Árásaraðila var leitað án árangurs en árásarþola sem var með skurð á augabrún var ekið á bráðamóttöku til aðhlynningar.

Sá sem varð fyrir árásinni er rúmlega tvítugur og segir hann frá því á Facebook að árásarmaðurinn hafi verið á svipuðu reki. Fjölmargir gengu fram hjá þar sem hann var blóðugur í strætóskýlinu án þess að veita honum aðstoð.

Hann segir svo frá: „Ég sagðist einungis eiga strætókort og einhverra hluta vegna fór það frekar illa í hann því áður en ég vissi dundu á mér höggin frá honum og það var ekki fyrr en ég kom hendinni fyrir og öskraði af lífs og sálarkröftum á hjálp sem að hann fór að bakka út. Hann sagði mér að „fokka mér“ og labbaði svo í burtu. Eftir lá ég með blóðugt auga, mölbrotin gleraugu við hliðina á mér og kom varla upp orði af hræðslu ásamt því að hægri þumalfingurinn varð fyrir miklu hnjaski og er óhreyfanlegur.

Það var þó maður skammt frá á hjóli sem hafði greinilega stoppað til þess að horfa á atburðinn og ég kallaði eins og ég gat á þennan mann. Maðurinn horfði í áttina á mér, snéri sér við og hjólaði í burtu eins og ekkert hafði gerst. Þá næst komu tvær konur labbandi framhjá og horfðu á mig liggja í strætóskýlinu og litu mig hornauga í stað þess að spyrja hvort allt væri í lagi.

Ég hringdi í 112 og kom varla upp orði enda mjög hræddur og sjokkeraður eftir það hvað hafði gerst, ég trúði því varla sjálfur en ég náði að koma upp úr mér hvar ég var staddur og hún sendi sjúkra og lögreglubíl á staðinn. Á meðan ég beið eftir þeim hélt áfram að blæða úr skurðinum hjá auganu og tveir hópar með fjórum kvenmönnum hvor löbbuðu framhjá og sáu mig sitjandi á bekknum að reyna að þurrka blóð af auganu mínu, afskiptalaust löbbuðu þær framhjá.

Er samfélagið í alvöru orðið þannig í dag að blóðugur maður á almannafæri er ekki þess virði að athuga hvort sé í lagi með?

Maðurinn á hjólinu er sá eini sem gæti hafa séð gerandann, enda man ég lítið eftir honum þar sem að hræðslan og áfall tóku öll völd, ásamt því að ég gat ekki haft blóðugt augað opið fyrr en hann var kominn í burtu,“ segir sá sem varð fyrir árásinni og hann biður fólk um að aðstoða við að leita að árásarmanninum og eins reiðhjólamanninum sem sá árásina.

mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert