„Útstreymi brennisteinsvetnis frá virkjunum Orkuveitu Reykjavíkur á Hengilssvæðinu er stærsta umhverfismálið, sem fyrirtækið glímir nú við í rekstri sínum.“
Þetta segir í tillögu sem Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur (OR) lagði fram fyrir hönd fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á stjórnarfundi OR í gær.
Þar er lagt til að stjórn OR samþykki að setja upp tvær nýjar síritandi loftgæðamælistöðvar til að bæta vöktun á styrk brennisteinsvetnis í andrúmsloftinu. Önnur stöðin verði við austurenda byggðar í Breiðholti og hin við austurenda byggðar í Grafarholti-Úlfarsárdal. Þær komi til viðbótar stöðvum sem nú eru við Norðlingaholt og Grensásveg. Kjartan sagði að meðvitund almennings um þessa mengun hefði aukist mjög mikið. Betri mælingar væru til að upplýsa almenning betur um loftgæðin hverju sinni.