Gerbreytt umhverfi öryggismála

Anders Fogh Rasmussen, , framkvæmdastjóri Atlantshafsabandalagsins (NATO), á fundinum í …
Anders Fogh Rasmussen, , framkvæmdastjóri Atlantshafsabandalagsins (NATO), á fundinum í Brussel. AFP

„Aðgerðir Rússa gagnvart Úkraínu hafa breytt umhverfi öryggismála í grundvallaratriðum,“  sagði Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsabandalagsins (NATO), við upphaf  fundar utanríkisráðherra NATO í Brussel.  Hann sagði að sýn manna á Evrópu sem eina heild, frjálsa og friðsamlega, væri ekki söm vegna atburðanna í Úkraínu á undanförnum mánuðum.

Georgia skrefi nær aðild

Ráðherrarnir, þar á meðal Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra Íslands, hittust yfir kvöldverði í gærkvöldi. Rædd voru rædd málefni fjögurra rikja sem sýnt hafa áhuga á að fá aðild að bandalaginu. Niðurstaða fundarins var að veita einu þeirra, Georgíu, umtalsverðan stuðning til að uppfylla öll skilyrði fyrir aðild. Ekki er ljóst í hverju þessi stuðningur verður fólginn. Þá verður aukinn kraftur settur í viðræður við Montnegro og stefnt að því að ákveða á næsta ári hvort ríkinu verður boðin aðild.

Athygli vöktu þau ummæli Rasmussens að ekkert „þriðja ríki“ hefði neitunarvald gagnvart stækkun NATO. Var þar greinilega vísað til Rússlands sem lýst hefur mikilli andstöðu við aðild Georgíu að NATO. Landið tilheyrði á sínum tíma Sovétríkjunum.

Niðurstaða utanríkisráðherranna felur í sér að ákvörðun um aðild Georgíu að NATO verður ekki tekin á leiðtogafundi bandalagsins i Wales í haust eins og Georgíumenn höfðu vænst. Þetta eru því nokkur vonbrigði fyrir þá.

Úkraína efst á baugi

Í dag verða málefni Úkraínu efst á baugi á ráðherrafundinum. Einnig verða málefni Afganistans rædd. Þá mun John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, reifa stöðu mála í Írak, þar sem herlið uppreisnarmanna hefur unnið hvern sigurinn á fætur öðrum að undanförnu.

Í yfirlýsingu, sem birt er á vef utanríkisráðuneytisins, kveðst Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fagna því að Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, hafi lagt fram áætlun um hvernig stilla megi til friðar í landinu. Utanríkisráðherra segir íslensk stjórnvöld styðja friðaráætlunina sem sé mikilvægur grundvöllur þess að ofbeldi í austurhluta Úkraínu verði stöðvað. Hann segir áætlunina staðfesta að Poroshenko forseti leggi höfuðáherslu á að tryggja frið og öryggi fyrir alla íbúa landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert