Þungarokkarar vilja að Plötuskápurinn lifi

Plötuskápstríóið - Gunnlaugur Sigfússon, Halldór Ingi Andrésso og Siggi Sverris …
Plötuskápstríóið - Gunnlaugur Sigfússon, Halldór Ingi Andrésso og Siggi Sverris eru umsjónarmenn þáttarins.

Ekki er með öllu víst að útvarpsþáttur Rásar 2, Plötuskápurinn, haldi göngu sinni áfram að sumri liðnu. Þættinum verður útvarpað í síðasta sinn fyrir óskilgreint sumarleyfi á föstudaginn, en þátturinn hefur aldrei verið settur í slíkt leyfi síðan hann fór fyrst í loftið árið 2011, að sögn Sigurðar Sverrissonar, eins umsjónarmanna þáttarins.

„Það standa yfir margvíslegar breytingar á starfsemi RÚV og dagskrárgerð á Rás 2 er þar auðvitað ekki undanskilin,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is í dag. „Mér fannst rétt að kveðja hlustendur til öryggis síðastliðið föstudagskvöld ef svo færi að þátturinn kæmist ekki aftur á dagskrá.“ Sigurður segist hafa verið viðloðandi tónlist síðan hann keypti sína fyrstu hljómplötu, en hann sá m.a. um tónlistardálkinn Járnsíðuna í Morgunblaðinu.

„Plötuskápurinn lifi!“

„[Siggi] er fagmaður fram í fingurgóma. Undirbýr sig af kappi, mætir með handrit í hljóðver og eys fróðleik yfir hlustendur,“ skrifar Orri Páll Ormarsson, blaðamaður hjá Morgunblaðinu, í Ljósvakapistli í blaðinu í gær. Pistillinn hefur fengið talsverða athygli á Facebook og þungarokkarar hvetja útvarpsstjóra til að leyfa „plötuskápnum að lifa“ og vísa þar í nafn þáttarins.

Sigurður er ánægður með sýndan stuðning. „Viðbrögðin við pistli Orra Páls í Morgunblaðinu í gær, sem ég setti á Facebook-síðuna mína, benda til þess að fjölmargir vilji að þátturinn fái að lifa áfram eftir sumarleyfi, hversu langt sem það verður svo á endanum.“ Þátturinn sé mikið ástríðumál fyrir hann og þá Gunnlaug Sigfússon og Halldór Inga Andrésson, umsjónarmenn þáttarins. „Auðvitað leyfum við okkur að vona að þetta sé aðeins sumarleyfi, ekki nein endalok.“

Þátturinn hefur farið um víðan völl og hefur tekið ýmiskonar popp, rokk og ról, þungarokk, djass, reggí, kántrí, þjóðlagatónlist, blús, sálartónlist o.fl. til umfjöllunar, samkvæmt lýsingu þáttarins á vef Ríkisútvarpsins. Umsjónarmenn leitist við að fræða hlustendur um efnið. 

„[Siggi] kynnir til sögunnar hvert bandið af öðru sem ég hef aldrei heyrt um,“ skrifar Orri Páll og lýsir vonum sínum um að Frank Hall, nýskipaður dagskrárstjóri Rásar 2, haldi plötuskápnum opnum. 

Sigurður Sverrisson ásamt Dave Mustaine höfuðpaur Megadeth.
Sigurður Sverrisson ásamt Dave Mustaine höfuðpaur Megadeth.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert