Akureyrarbær greiði milljónir

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt Akureyrarkaupstað brotlegan við uppsögn á tveimur fyrrverandi slökkviliðsmönnum en bærinn rifti ráðningarsamningum þeirra fyrirvaralaust. Akureyrarkaupstaður var dæmdur til að greiða þeim skaðabætur, en samtals nemur upphæðin fimm milljónum króna.

Auk þess er bærinn dæmdur til að greiða 2,1 milljón króna í málskostnað.

Í málinu var ágreiningur með mönnunum og Akureyrarbæ um starfslok þeirra hjá Slökkviliði Akureyrar í byrjun desember 2012 eftir að hafa farið í eins árs launalaust leyfi í desember 2011 og ráðið sig til starfa hjá öðru fyrirtæki á meðan. Eftir að viðræður um starfslok runnu út í sandinn mættu mennirnir því aftur til vinnu hjá slökkviliðinu en þá hafnaði Akureyrarbær vinnuframlagi þeirra.

Málið tengist deilum sem hafa staðið yfir lengi innan slökkviliðsins og beindust m.a. að samskiptum þeirra við fyrrverandi slökkviliðsstjóra, en mennirnir sökuðu hann um einelti. Annar mannanna er fyrrverandi aðstoðarslökkvistjóri og hinn fyrrverandi varðstjóri.

Í málinu gerðu mennirnir kröfur um vangoldin laun og laun í uppsagnarfresti. Auk þess kröfðust þeir skaðabóta, þ.e. tjóns vegna tekjutaps, miska vegna starfsloka, en jafnframt gerðu þeir kröfur um miskabætur vegna eineltis á vinnustað.

Akureyrarbær hafnaði öllum kröfum mannanna.

Samstarfsörðugleikar ríkt um árabil

Í dómum héraðsdóms, sem féllu 18. og 19. júní sl., segir, að ósætti og samstarfsörðugleikar hafi um árabil ríkt á meðal starfsmanna Slökkvistöðvarinnar á Akureyri. Ekki hafi orðið þar breyting á eftir að forráðamenn Akureyrarbæjar afréðu að ráða einn af starfsmönnum slökkviliðsins sem slökkviliðsstjóra í lok árs 2006.  

Þá segir, að tiltölulega fljótlega eftir ráðninguna hafi orðið slík leiðindi á meðal starfsmannanna, ekki síst á meðal varðstjóra, að byggingartæknifræðingur, sem hafði með málefni slökkviliðsins að gera hjá Akureyrarbæ, virðist hafa séð sig knúinn til að sitja reglulega fundi með varðstjórunum og yfirmönnum slökkviliðsins, nánar tiltekið á árunum 2008 og 2009.  Þá kemur fram, að þegar þessar ráðstafanir reyndust ekki fullnægjandi afréð Akureyrarbær að kalla til, í byrjun árs 2011, vinnustaðasálfræðing.

Hann vann m.a. að gerð nafnlausrar könnunar á meðal starfsmanna slökkviliðsins, í lok mars 2011. Í dómi héraðsdóms segir, að óumdeilt sé að þar hafi komið fram hörð gagnrýni á störf áðurnefnds slökkviliðsstjóra. Tekið er fram, að um eiginlega eineltisathugun hafi hins vegar ekki verið að ræða.

„Fyrir liggur að vegna eineltiskvörtunar nefnds slökkviliðsstjóra og síðar sambærilegra kvartana stefnanda og fleiri undirmanna á Slökkvistöðinni, á árinu 2012, voru tilkvaddir á árinu 2012 fyrrnefndir sálfræðingar til að leggja mat á og gera skýrslur um álitaefnið,“ segir í dómum héraðsdóms.

Aðstoðarslökkvistjórinn og varðstjórinn samþykktu boð vinnuveitenda síns um að fara í eins árs launalaust leyfi frá 1. desember 2011, m.a. vegna þess að þeir héldu því fram að þeir hefðu sætt einelti af hálfu slökkviliðsstjórans um árabil og vegna þrúgandi andrúmslofts á vinnustaðnum.

Tekið skal fram, að héraðsdómur sýknar Akureyrarbæ af kröfum mannanna um miskabætur að því er varðar einelti á vinnustað.

Hefði átt að grípa til vægari úrræða

Héraðsdómur féllst aftur á móti á það með starfsmönnunum að Akureyrarbær hafi fyrirvaralaust rift ráðningarsamningi aðila með því að hafna vinnuframlagi þeirra er þeir komu til starfa á starfsstöð Slökkvistöðvarinnar á Akureyri í byrjun desember 2012.

Dómurinn segir að Akureyrarbær hafi við ákvörðun sína um starfslok mannanna í byrjun desember 2012 ekki gætt að réttindum þeirra samkvæmt kjarasamningi. Var þannig ekki gætt að andmælarétti þeirra áður en ákvörðun var tekin um að hafna vinnuframlagi þeirra. Þá þykir bærinn heldur ekki hafa kannað málsatvik nægjanlega líkt og honum var skylt.

Þá segir dómurinn að yfirsjón mannanna um að senda ekki formlega tilkynningu þremur mánuðum fyrir lok leyfisins ekki veitt bænum tilefni til svo harkalegra úrræða sem raun varð á. Önnur og vægari úrræði virðist hafa verið nærtækari, segir í dómunum. Tekið er fram að mennirnir hafi unnið lengi hjá slökkviliðinu og að á þeim tíma hafi þeim aldrei verið veitt áminning eða viðvörun.

Héraðsdómur Norðurlands eystra fellst því á það með mönnunum að Akureyrarbær hafi fyrirvaralaust rift ráðningarsamningum með því að hafna vinnuframlagi þeirra er þeir komu til starfa á starfsstöð Slökkvistöðvarinnar á Akureyri í byrjun desember 2012. Með þeirri háttsemi, sem teljist til stjórnvaldsákvörðunar, hafi bærinn farið gegn ákvæðum kjarasamnings og jafnframt brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Auk þess hafi Akureyrarbær bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart mönnunum.

Héraðsdómur dæmdi því Akureyrarbæ til að greiða aðstoðarslökkviliðsstjóranum fyrrverandi þrjár milljónir króna í bætur en varðstjórinn hlaut tvær milljónir. Þá var bærinn dæmdur til að greiða samtals 2,1 milljón króna í málskostnað.

Áfellisdómur

Ekki er búið að taka ákvörðun um hvort málunum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Valdimar Leó Friðriksson, framkvæmdastjóri Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir að dómurinn sé áfellisdómur yfir þá sem koma að starfsmannamálum hjá Akureyrarbæ. Hann segir að það komi til greina að sambandið muni áfrýja dómunum til að fá fyrir fullum málskostnaði, sem hljóðar samtals upp á fjórar milljónir króna, auk annars kostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert