Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður lagði í dag inn endurupptökubeiðni fyrir þau Erlu Bolladóttur og Guðjón Skarphéðinsson sem voru dæmd í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Þau fara fram á endurupptöku málsins til að sýna fram á sakleysi þeirra.
„Mér skilst reyndar að það vilji svo vel til að það sé fundur í endurupptökunefnd á morgun. Næsta mál á dagskrá ætti að vera að senda málið til ríkissaksóknara til umsagnar,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is.
Það verður svo í höndum ríkissaksóknara að taka afstöðu til þess hvort embættið mæli með því að endurupptaka verði veitt.
„Ég held ennþá dauðahaldi í smá vonarneista um það að stjórnvöld sjái ljósið,“ sagði Erla þegar mbl.is ræddi við hana sl. föstudag vegna málsins.
„Þegar málið er komið á þennan stað og það er vöknuð raunveruleg von um að réttlætið sé í sjónmáli þá koma auðvitað upp ýmsar tilfinningar sem ég hef reynt að halda aftur af í gegnum alla þessa áratugi,“ sagði hún ennfremur.
Ragnar upplýsti í dag að Guðjón Skarphéðinsson hefði einnig farið fram á endurupptöku málsins.
Skýrsla starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem var kynnt í mars 2013, er á meðal þeirra gagna sem eru lögð til grundvallar endurupptökubeiðninni. Í skýrslunni kom fram, að að það væri hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður allra þeirra sem hlutu dóm í málinu hefði verið óáreiðanlegur eða falskur. Veigamiklar ástæður væru fyrir endurupptöku.
Starfshópurinn sagði þrjár leiðir mögulegar. Ein var sú að ríkissaksóknari meti hvort tilefni sé til endurupptöku.