Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, beitti sér gegn því sem efnahags- og viðskiptaráðherra 2010-2011, að Seðlabankinn stöðvaði viðskipti einstaklinga við erlend tryggingafélög. Hann telur enn að slík inngrip séu of íþyngjandi.
Sem kunnugt er gerði Seðlabankinn breytingar á reglum um gjaldeyrismál 19. júní, í því skyni að stöðva óheimila söfnun sparnaðar hjá erlendum tryggingafélögum. Varðar bannið tryggingar tugþúsunda Íslendinga.
Árni Páll segist hafa sem ráðherra litið svo á að Seðlabankinn gæti ekki stigið það skref að banna umrædd viðskipti. Fram hefur komið að þau hafi leitt til um 10 milljarða útstreymis gjaldeyris á ári.
Of íþyngjandi aðgerð
„Seðlabankinn kynnti á sínum tíma hugmyndir um að takmarka þennan þátt viðskipta yfir landamæri. Um þetta var dálítið rætt, m.a. man ég eftir fundi með fulltrúa hagsmunaaðila á árinu 2011. Afstaða mín var ósköp einfaldlega sú að þetta væri of íþyngjandi aðgerð, varðaði fjölda fólks og takmarkaði grundvallarréttinn til frjálsra viðskipta yfir landamæri,“ segir Árni Páll.
„Niðurstaða Seðlabankans á þeim tíma, eftir nokkrar umræður, var að þessir samningar samrýmdust haftalögunum. Í þessum haftamálum er ábyrgðin á hendi ráðuneytisins og ráðherrans. Seðlabankinn hefur annað hlutverk við stjórnsýslu hafta en þegar hann stjórnar peningamálum. Við stjórn peningamála er hann fullkomlega sjálfstæður og stjórnvöld hafa engin afskipti af ákvörðunum hans þar. Þarna er Seðlabankinn að vinna tiltekið verkefni og ábyrgðin er í höndum ráðherrans á hverjum tíma. Þess vegna er verklagið auðvitað annað. Þess vegna hlýtur maður að spyrja hver er afstaða ráðherrans til þessa máls,“ segir Árni Páll og vísar til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.
„Því að þetta stjórnskipulag hefur ekkert breyst. Ráðherrann er enn þá formaður samráðsnefndar um afnám gjaldeyrishafta, alveg eins og var í fyrri tíð. Stjórnvöld bera ábyrgð á að marka stefnuna og því hversu langt er gengið. Ég hef ekki breytt um mína afstöðu til þessa. Mér finnst mjög holur hljómur í því þegar menn tala um að það þurfi að flýta afnámi hafta ef þeir geta ekki þolað þetta útstreymi. Maður hlýtur þá að spyrja sig hvernig afnám á að líta út, ef þetta takmarkaða útstreymi á að ógna þjóðarhag.“
Stjórnvöld á hreinni haftaleið
- Hver er þín skoðun á þeirri ákvörðun Seðlabankans að breyta reglum um gjaldeyrismál 19. júní?
„Ég einfaldlega tel að þarna séu stjórnvöld á hreinni haftaleið og ég skil ekki hvað menn eru alltaf að tala um ákvarðanir Seðlabankans í þessu efni. Seðlabankinn er þarna að breyta um stefnu frá fyrri túlkun og það er óhugsandi að slík stefnubreyting sé ákveðin nema að ráðherrann samþykki hana og telji hana eðlilega.“
- Telurðu að það sé verið að stíga skref í þá átt að loka landinu?
„Ég held að það blasi við hverjum manni. Það er ekki kræsileg framtíðarsýn að búa í landi þar sem fólk getur ekki verið frjálst að því að eiga viðskipti, einstaklingar, um frekar minniháttar hluti yfir landamæri. Það sýnir fullkomna uppgjöf ríkisstjórnarinnar með að gera eitthvað við afnám hafta.“