Verjandi Lárusar Welding óskaði eftir því við fyrirtöku Stím-málsins svokallaða í dag að því yrði skipt upp þannig að mál ákæruvaldsins á hendur Lárusi verði rekið í einu lagi. Jafnframt gerði verjandi kröfu um málinu yrði frestað. Þessu mótmælti ákæruvaldið.
Sakborningar voru ekki viðstaddir fyrirtökuna í dag, en í málinu eru þeir Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, Jóhannes Baldursson, þá framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankastjóri Saga Capital eru ákærðir.
Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, sagði að það væri íþyngjandi fyrir Lárus að hafa þurfa að sæta ítrekuðum ásökunum embættis sérstaks saksóknar og hann ætti rétt á því að mál gegn honum væri rekið í einu lagi. Óttar tók fram að þetta sé þriðja málið sem Lárus sé ákærður fyrir en í hinum tveimur hafi hann verið sýknaður.
Óttar óskaði jafnframt eftir því að sérstakur saksóknari gefi út yfirlit er varða stöðu mála embættisins er varða Lárus. Óttar benti á að í bréfi sem barst honum í janúar 2013 frá sérstökum saksóknara hefði komið fram að rannsóknum allra mála á hendur Lárusi hefði átt að ljúka í september 2013. Því óskaði hann eftir uppfærðu yfirliti nú. Hólmsteinn Gauti Sigurðsson saksóknari sagði að embættið myndi verða við þeirri kröfu fljótlega.
Símon Sigvaldason héraðsdómari sagði við fyrirtökuna að tilgangur hennar í dag hefði verið að fara yfir stöðu málsins og átta sig á umfangi þeirra gagna sem stæði til að leggja fyrir dóminn. Í kjölfar kröfunnar um að málinu yrði skipt upp óskaði Óttar eftir því að fá að rekja málið fyrir dómnum. Það verður svo í höndum dómara að ákveða hvort hann verði við kröfunni eður ei.
Næsta fyrirtaka í málinu verður 9. september nk.
Lárus og Jóhannes eru ákærðir fyrir umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína til lánveitinga og stefnt fjármunum bankans í verulega hættu, en Þorvaldur Lúðvík fyrir hlutdeild í brotinu.
Við síðustu fyrirtöku málsins þann 28. apríl sl. neitaði Jóhannes Baldursson sök.
Eignarhaldsfélagið Stím var stofnað veturinn 2007 og var Glitnir stærsti hluthafi þess. Stím keypti hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir tæplega 25 milljarða króna í nóvember 2007 af Glitni. Kaupin voru að stórum hluta fjármögnuð með láni frá Glitni upp á tæpa 20 milljarða með veði í einungis hlutabréfunum sjálfum.
Upphæð lánsins var hærri en áhættunefnd bankans mátti afgreiða án samþykkis stjórnar en lánveitingin var þó ekki borin upp fyrir stjórnina líkt og skylt var að gera.
Enginn markaður var fyrir bréfin á þeim tíma sem Stím greiddi fyrir þau og er talið að viðskiptin hafi verið til þess gerð að halda uppi virði hlutabréfa í Glitni og FL Group.
Stím-málið hefur verið til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara frá árinu 2009 og er á meðal þeirra elstu mála.