Borgaskóli stóð sig best í PISA

Eyþór Árnason

Borgaskóli stóð sig best í PISA-rannsókninni árið 2012. Þetta kemur fram í opinberum niðurstöðum rannsóknarinnar sem birtust á vef Reykjavíkurborgar fyrr í dag. Álftamýrarskóli og Háteigsskóli stóðu sig einnig áberandi vel.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úr um að borginni væri skylt að birta niðurstöðurnar, en ákvörðun borgarinnar um að birta þær ekki var kærð til nefndarinnar árið 2012. 

Ef árangur í PISA-rannsókninni er skoðaður eftir landshlutum sést að reykvískir grunnskólanemar stóðu sig í heild einna best. Rannsókninni er skipt í þrjá hluta; lesskilning, stærðfræðilæsi og náttúrufræðilæsi, en þátttaka í rannsókninni er valfrjáls.

Í fyrsta, öðru og þriðja sæti

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar stóð Borgaskóli sig best í stærðfræðinni árið 2012, en var í fimmta sæti þegar rannsóknin var gerð árið 2009. Þá var Hvassaleitisskóli í fyrsta sæti. Borgaskóli var jafnframt í öðru til þriðja sæti í lesskilningi og þriðja sæti í náttúrufræðilæsi árið 2012.

Álftamýrarskóli stóð sig best í lesskilningi 2012 og bætir sig mikið á þeim þremur árum sem liðu á milli rannsókna, en skólinn var í 17. sæti árið 2009. Það ár stóð Austurbæjarskóli sig best. Álftamýrarskóli varð í öðru sæti í náttúrufræðilæsi og sjötta til sjöunda sæti í stærðfræðilæsi árið 2012.

Í náttúrufræðilæsi stóð Háteigsskóli sig best og bætir sig nokkuð á milli rannsóknanna árið 2009 og 2012. Þá var skólinn í 12. sæti en Hvassaleitisskóli var með flest stig. Háteigsskóli var í öðru sæti í stærðfræðilæsi og fimmta sæti í lesskilningi árið 2012.

Hér má nálgast niðurstöðurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert