ISAVIA ohf. hefur frestað lokun flugbrautanna á Kaldármelum, Siglufirði og Sprengisandi. Lokunin átti að taka gildi í byrjun júlí en var frestað til 1. september. Umræddir lendingarstaðir hafa ekki fengið nægilegt viðhald og eru því í slæmu ástandi.
Eins og fram kom í frétt mbl.is tóku flugskólar á höfuðborgarsvæðinu ekki vel í hinar fyrirhuguðu afskráningar en nú hefur þeim gefist annað tækifæri. Einnig var frestur vegna andmæla lengdur til 1. ágúst.
Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segir að ríkisvaldinu hafi farið fram í þessum málum því nú geti hagsmunaaðilar nýtt andmælarétt sinn þegar til stendur að loka lendingarstöðum en slíkt hafi ekki verið í boði áður. „Það er vonandi að þetta sé upphafið á einhverjum breytingum. Maður bindur vonir við að þessi frestun sé merki þess að þeir ætli kannski að hugsa sinn gang,“ segir Matthías.
Friðþór Eydal, talsmaður ISAVIA ohf., tekur fram að flugbrautin á Siglufirði hafi verið ónothæf síðan í nóvember 2013 og að Kaldármelar hafi ekki verið í þjónustusamningi við innanríkisráðuneytið frá 2008. Hann nefnir að Sprengisandsbrautin sé í friðlandi Þjórsárvera og þangað verði væntanlega bannað að fljúga á sumrin. Af þessum ástæðum sé tilefni til að loka þessum lendingarstöðum.
Friðþór minnir á að ISAVIA ohf. annast rekstur og viðhald flugvalla og lendingarstaða í samræmi við þjónustusamning innanríkisráðuneytisins og fjárveitingar Alþingis til flugmála. Hann segir að ríkisvaldið leggi áherslu á viðhald áætlunar- og sjúkraflugvalla svo tryggja megi mikilvægar flugsamgöngur.
Fjórum flugbrautum hefur verið lokað síðan 2007 vegna hrakandi ástands.