Nöguðu brekkurnar í lægsta gír

Hjólreiðakapparnir Þórður Kárason og Sigurður Gylfason, keppendur í WOW Cyclothon, luku keppni upp úr hádegi í dag. Þeir sögðu að á síðustu metrunum hefði keppnin ekki skipt máli lengur heldur upplifunin að hafa komist í mark en félagarnir hjóluðu með hönd á öxl hvor annars og urðu því hnífjafnir. Þeir voru fyrstu keppendur í einstaklingskeppni hjólreiðakeppninnar til að koma í mark en fyrstu liðin fóru að skila sér fyrir hádegi í gær. 

„Brekkurnar tóku svo á lærin að við vorum komnir með máltæki sem sagði „jæja, nú nögum við þær“. Þá var skipt í lægsta gír og síðan nöguðum við brekkurnar,“ sagði Þórður er hann stóð á sigurpallinum á endalínunni.

„Það var svolítið erfitt þegar fyrstu liðin fóru að taka fram úr okkur því þá sperrtumst við upp og kláruðum okkur eiginlega alveg,“ sagði Sigurður Gylfason. 

Kapparnir sögðu að eitt liðið hefði sýnt á sér „loðinn rassinn“ er það fór fram úr þeim og var mikið hlegið að því. 

Þórði þótti kampavínsflöskurnar sem biðu þeirra við endalínuna fremur litlar. Þá heyrðist úr hópi áhorfenda að ástæða þess væru líklega gjaldeyrishöftin.

Eiríkur Ingi Jóhannsson, keppandi í WOW Cyclothon, er ekki enn kominn í mark en ástæða þess er að fylgdarbíll hans bilaði á leiðinni sem tafði hann talsvert. Búist er við að hann renni yfir endalínuna seinna í dag.

Í ár var í fyrsta sinn boðið upp á einstaklingsflokk í WOW Cyclothon þar sem einn hjólreiðamaður hjólar alls 1332 km einn síns liðs og hefur til þess 84 klukkustundir.

Fimm íslenskir ofurhugar hófu keppni síðastliðinn þriðjudag. Því miður þurftu tveir keppendur að draga sig úr keppni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert