Mæta þriggja metra háum snjósköflum

Mikill snjór er á svæðinu við Öskju og sl. daga hafa starfsmenn Mývatn Tours í Mývatnsveit aðstoðað Vegagerðina við snjómokstur. Miðað við núverandi aðstæður þurfa ferðalangar að ganga um 2 km langa leið að bílastæðinu við Öskju þar sem ekki verður komist lengra í mokstrinum í bili.

Gísli Rafn Jónsson, framkvæmdastjóri Mývatn Tours, segir í samtali við mbl.is, að ástæðu sé til að upplýsa ferðalanga um aðstæður. Þarna sé mikill snjór og að menn þurfi að ganga á snjó inn að Öskjuvatni og Víti.

Fyrirtækið hefur notað snjótroðara til að moka veginn með Vegagerðinni en í gær og í fyrradag voru samtals um tveir kílómetrar mokaðir. Ekki verður lengra komist í bili vegna of mikilla snjóalaga. Um er að ræða Öskjuleið sem í Vegakerfinu er merktur sem hálendisvegur F88.

Aðstæður geta breyst frá degi til dags

„Við mokuðum og mokuðum og svo komumst við ekki lengra af því að það er einfaldlega allt of mikill snjór. Þannig að það eru núna ennþá eftir tveir kílómetrar upp bílaplaninu við Öskju,“ segir Gísli.

„Hann er ægilega þungur snjórinn og við erum að moka skafla sem eru tveir til þrír metrar á köflum,“ segir hann ennfremur.

Aðspurður segir Gísli að margir séu þarna á ferli og því sé nauðsynlegt að vekja athygli fólks á þessu. Þarna séu t.d. margir erlendir ferðamann á bílaleigubílum sem gangi misvel að komast leiðar sinnar. Gísli bendir á að mikið vatn og efni úr veginum renni eftir snjógöngunum sem búið sé að moka.

„Þannig að þetta er ekki ákjósanlegt fyrir jepplinga á köflum,“ bendir Gísli á. Hann segir ennfremur að aðstæður breytist töluvert dag frá degi vegna veðurs og eftir því hvernig bráðnunin sé.

Gísli bendir á að nú taki við bið á mokstrinum. „Það verður að fá að bráðna aðeins áður en haldið er áfram að moka.“ Aðspurður á hann von á því að það verði að minnsta kosti ein vika - jafnvel hálfur mánuður.

Leiðrétt kl. 12:50

Upphaflega kom fram í fréttinni að liðsmenn Björgunarsveitarinnar Stefáns í Mývatnssveit aðstoðuðu við moksturinn. Svo er hins vegar ekki heldur fyrirtækið Mývatn Tours. Gísli Rafn Jónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, er hins vegar einnig liðsmaður björgunarsveitarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert