Helgi Númason endurskoðandi telur að nafn hans og endurskoðunarfyrirtækis hans hafi mögulega verið misnotað við undirritun ársreikninga félags sem er í eigu Hafnarfjarðarbæjar.
Þetta kemur fram í fundargerð bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá því gær en samkvæmt gögnum sem lögð voru fram á fundinum virðist sem ársreikningar félagsins GN eigna hafi verið áritaðir með hans nafni án þess að hann hafi endurskoðað þá.
Í bréfi sem lögfræðistofan Sókn, sem Helgi Númason leitaði til, hefur sent til Hafnarfjarðarkaupstaðar kemur fram að bæjarfélagið hafi stofnað einkahlutafélagið GN eignir ehf. þann 9. júlí 2009 utan um eignir sem áður voru leigðar af Nýsi í svokallaðri einkaframkvæmd. Nýsir varð síðan gjaldþrota. Þetta voru skólabyggingar sem og leikskólabyggingar, samtals að fjárhæð nær fjórum milljörðum króna.
Helgi Númason löggiltur endurskoðandi tók við stofnun GN eigna að sér að vera endurskoðandi félagsins. Hann hafi hins vegar ekki komið að endurskoðun ársreikninga félagsins frá því að ársreikningur vegna 2009 var gerður.
„Honum varð hins vegar ljóst fyrir skömmu að svo virðist sem ársreikningar félagsins hafi alla tíð borið það með sér að skrifstofa hans hafi endurskoðað þá.
Sé það rétt, þá er um grófa misnotkun á nafni hans og faglegum heiðri að ræða, auk þess sem slík háttsemi hlýtur að teljast mjög alvarleg skjalafölsun," segir í bréfinu sem hægt er að lesa hér