Mikil stemning hefur verið á Shellmótinu í Vestmannaeyjum um helgina og telja mótshaldarar að um sé að ræða fjölmennasta mótið frá upphafi. Þátttakendur eru um 1250 talsins og eru því 100 fleiri en áður hefur verið samkvæmt frétt á vefsíðu ÍBV.
Guðmundur Tómas Sigfússon er á mótinu, en hann segir allt hafa gengið eins og best verður á kostið.
„Eyjamenn hafa talað um að þetta sé besta mótið hingað til. Veðrið hefur verið sæmilegt og engar kvartanir hafa borist eða alvarleg mál komið upp,“ segir Guðmundur.
Undir þetta tekur lögreglan í Vestmannaeyjum, en engin alvarleg mál hafa komið á borð hennar um helgina.
104 lið eru í mótinu og koma þau frá 33 félögum. Nánast öll gistipláss eyjunnar eru full, en gist er í skólum og húsnæði Rauða krossins auk þess sem talsverður fjöldi fólks er á tjaldsvæðinu að sögn Guðmundar.
Keppt er um nokkra bikara í mótinu og segir Guðmundur það vera til þess að sem flest lið eigi möguleika á titli. Úrslitaleikir fara fram í mótinu nú síðdegis og ríkir mikil spenna meðal keppenda í Heimaey.