Mamman missti svefn vegna spennu

„Þetta var vissulega erfitt, en við reyndum að hugsa sem minnst út í það,“ segir Kristín Sif Þórarinsdóttir, en hún er ein þeirra sem hjólaði hring um landið með liðinu HjólaKrafti í WOW Cyclothon hjólreiðakeppninni.

„Það voru allir svo glaðir og ánægðir að við pældum lítið í erfiðu köflunum,“ segir Kristín.

Lið HjólaKrafts er skipað fjórum fullorðnum einstaklingum og sex ungmennum sem höfðu ekki notið sín í öðrum íþróttum og voru í áhættuhópi fyrir lífstílssjúkdóma, en þau fundu sig öll í hjólreiðum. Liðsfélagi Kristínar, Ingimundur Sigfússon, tekur í sama streng og hún.

„Þetta var svolítið erfitt, en við vorum ótrúlega ánægð með tímann sem við náðum. Við ætluðum bara að klára á 72 klukkustundum, en við komum í mark eftir 57,“ segir Ingimundur.

Hjólreiðar skemmtilegri en hlaup

Kristín og Ingimundur eru sammála um að hjólreiðar séu skemmtilegar og hafa bæði áhuga á að stunda þær áfram í framtíðinni.

„Mér finnst miklu skemmtilegra að hjóla en að hlaupa og þetta verður auðveldara þegar maður kemst af stað,“ segir Kristín.

HjólaKraftur hjólaði samferða liði WOW stelpna meirihluta leiðarinnar og gerðu þær ferðina mun skemmtilegri að sögn Kristínar. Ingimundur segir að lokaspretturinn hafi verið erfiðastur, en þá hafi liðsmenn verið orðnir nokkuð þreyttir.

„Við sváfum svona eins og hægt var á leiðinni. Við vorum með litla rútu með og gátum komið okkur fyrir í sætunum auk þess sem við vorum með litla dýnu í skottinu,“ segir Ingimundur.

„Við skiptum okkur niður í fimm hópa með tvo í hverjum hóp. Við skiptumst síðan á að hjóla, en við skiptum u.þ.b. tvisvar á daginn og fjórum sinnum á nóttunni,“ segir Kristín.

Fundu fyrir miklum stuðningi

Liðið fékk mikinn stuðning frá fólki úr öllum áttum, en að sögn Kristínar eru komnar inn um fjórtán síður af áheitum. Hún segir jafnframt að fjölskyldan hafi verið gríðarlega spennt yfir keppninni og velgengni hópsins.

„Mamma gat varla sofið af spenningi. Hún kom heim af næturvöktum og ætlaði að fara í háttinn, en gat það nánast aldrei því hún fylgdist svo mikið með okkur,“ segir Kristín.

HjólaKraftur er nú í efsta liðið í áheitasöfnun keppninnar og hefur hópurinn safnað tæplega 1,1 milljón króna. Hópurinn fær flugmiða til útlanda í verðlaun vinni hann keppnina, en að sögn Þorvalds Daníelssonar forsvarsmanns HjólaKrafts stefna þau á hjólaferð erlendis. Enn er opið fyrir áheit og er hægt að heita á liðið á áheitasíðu WOW Cyclothon.

Ljósmynd/Facebook síða KjólaKrafts
Meðlimir HjólaKrafts á góðri stundu
Meðlimir HjólaKrafts á góðri stundu Ljósmynd/Facebook síða KjólaKrafts
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert