Tvíburar fermdir við Kristnipoll

Elínborg Sturludóttir prestur, Jón Bald, Jarþrúður Pálmey og Anna Eiríksdóttir …
Elínborg Sturludóttir prestur, Jón Bald, Jarþrúður Pálmey og Anna Eiríksdóttir prestur við athöfnina í dag. Ljósmynd/Ólafur Ingi Ólafsson

Tvíburarnir Jarþrúður Pálmey og Jón Bald Freysbörn fermdust við Kristnipoll í Laxá í Dölum í dag. Systkinin voru einnig skírð á þessum fengsæla veiðistað fyrir fjórtán árum. Þá var bróðurdóttir þeirra einnig skírð við Kristnipoll í dag, svo að óhætt er að segja að staðurinn skipi mikilvægan sess hjá fjölskyldunni.

„Þau voru skírð í júlí árið 2000, en þá voru þúsund ár frá kristnitökunni. Munnmælasögur segja að Laxdælingar hafi verið skírðir á þessum stað við kristnitökuna og það var þess vegna sem börnin voru skírð þarna á þessum tíma,“ segir Jarþrúður Hanna Jóhannsdóttir, móðir tvíburanna og amma Bjarteyjar Ebbu Júlíusardóttur sem skírð var í dag. 

Hugmyndina að því að skíra Jarþrúði Pálmeyju og Jón Bald við Kristnipoll fékk afi þeirra, Jóhann Sæmundsson, ásamt Óskari Inga Óskarssyni sem þá var prestur á staðnum 

„Pabbi var lengi í stjórn veiðifélagsins og er mikið tengdur ánni. Þeir grófu upp þessar sögur af Laxdælingunum og þess vegna datt þeim í hug að gera þetta í tilefni þúsund ára kristnitökunnar,“ segir Jarþrúður.

Þrýstingur á að gifta sig líka við Kristnipoll

Jóhann átti einnig hugmyndina að fermingunni. „Hann stakk upp á þessu við krakkana og þau fengu náttúrulega að ráða því hvort þau vildu þetta. Þeim leist þó strax mjög vel á hugmyndina,“ segir Jarþrúður.

Systkinin voru mjög ánægð með daginn, en 70 manns voru við athöfnina. „Foreldrar mínir og þrjú systkini búa hérna í Dölunum þannig að við komum mikið hingað. Það var gott að vera úti af því það var svo gott veður. Það var smá andvari, reyndar sólarlaust, en rosalega fínt veður,“ segir Jarþrúður.

Liggur þá ekki beint við að börnin gifti sig þarna líka? „Nú er kominn ákveðinn þrýstingur á það. Það er að minnsta kosti búið að benda þeim á að það yrði góð hugmynd,“ segir Jarþrúður og hlær.

Bjartey Ebba Júlíusdóttir skírð. Foreldrar hennar eru Júlíus Már Freysson, …
Bjartey Ebba Júlíusdóttir skírð. Foreldrar hennar eru Júlíus Már Freysson, bróðir fermingabarnanna, og Hrafnhildur Bárðardóttir. Ljósmynd/Ólafur Ingi Ólafsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert