Vonskuveður framundan

Að sögn Óla Þórs verður mígandi rigning á höfuðborgarsvæðinu á …
Að sögn Óla Þórs verður mígandi rigning á höfuðborgarsvæðinu á þriðju- og miðvikudag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta er vonskuveður sem er að koma og við erum að reyna að koma því til skila svo að enginn verði fyrir alvarlegu tjóni,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Gert er ráð fyrir óvenju öflugri lægð miðað við árstíma á þriðjudag, sem fer yfir landið á miðvikudag. 

Að sögn Óla Þórs verður versta veðrið á þriðjudag og miðvikudag. „Ef spáin fer á þá leið sem við höldum verður leiðindaveður fyrir norðan út vikuna, frá fimmtudegi og jafnvel til sunnudags. Frekar svalt, rigning og norðanátt. Það er ekkert rosalega spennandi fyrir norðan þegar kalda loftið kemur hér suður frá Grænlandi,“ segir Óli Þór.

Hann segir að á höfuðborgarsvæðinu verði öllu bjartara og yfirleitt þurrt yfir daginn en svalt á nóttunni. „Það verður mígandi rigning á þriðjudag og mikil úrkoma,“ segir Óli Þór, en spáð er mikilli rigningu, sem er að sögn hans sterkasta lýsingarorðið yfir úrkomu.

Á þriðjudag verður lægðin vestur af landinu og vindáttin því suðaustlæg og má búast við að vindstyrkurinn verði á bilinu 10-18 m/s, einna hvassast um landið suðvestanvert og hviður við fjöll allt að 35 m/s. Þessu fylgir mikil rigning, mest sunnanlands síðdegis og um kvöldið. 

Á miðvikudag er að sjá að lægðin fari til norðausturs og verði skammt norður af landinu. Á þessari stundu er óvíst hvar versta veðrið verður en vísbendingar eru um að mesti vindurinn verði úr norðvestri um landið suðvestanvert um kvöldið á meðan mesta úrkoman verður líklega norðvestanlands og á Vestfjörðum. 

Hvassviðri á hestamannamóti á Hellu

Hvasst verður á vestanverðu landinu og þar með talið suðvestan til og einnig sunnanlands á miðvikudagskvöld og aðfaranótt fimmtudags. „Þetta er hvöss norðvestanátt og það er ekkert rosalega gott fyrir hestamannamót, hestakerrur og hjólhýsi og allt það sem er á Hellu,“ segir Óli Þór.

Hann bætir við að veðrið verði sérstaklega slæmt í ljósi þess að það er mitt sumar og bendir einnig á að öll vöð í ám á sunnanverðu landi og á hálendinu verði mjög varhugaverð.

Í fréttatilkynningu frá Veðurstofunni segir að af gefnu tilefni vilji Veðurstofan minna ferðalanga sem eru með aftanívagna á að huga sérstaklega að veðurathugunum og veðurspá næstu daga og að þeir sem eru að fara að heiman hugi að lausamunum. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert