Liðsmenn franska landsliðsins hlógu dátt þegar Jóhann Friðgeir Valdimarsson, söngvari, söng fyrir þá franska þjóðsönginn fyrir leik Frakklands gegn Íslandi á Laugardalsvelli árið 1998. Í nýlegri grein tímaritsins L'Équipe er því haldið fram að tilraun Jóhanns til að syngja La Marseillaise, þjóðsöng frakka, sé sú misheppnaðasta hingað til.
Knattspyrnusamband Íslands hugðist gera sérlega vel við frönsku leikmennina fyrir leikinn með því að fá tenórsöngvara til að syngja þjóðsöng þeirra. Jóhann Friðgeir mætti þar prúðbúinn og söng, frökkum til mikillar gleði.
„Þetta var mér mjög minnisstætt og skemmtilegt, þetta var fín auglýsing fyrir mig,“ segir Jóhann um þessa áhugaverðu uppákomu árið 1998.
Jóhann segist hafa farið með upptöku af söngi sínum til fransks vinar síns sem hrósaði honum mikið fyrir sönginn og sagði ekkert athugavert við hann. Því má draga þær ályktanir að frakkar hafi hlegið að einhverju öðru þann dag.
Leikurinn endaði í jafntefli en var þó ákveðinn sigur fyrir íslendinga þar sem leikmenn franska liðsins höfðu skömmu áður orðið að heimsmeisturum í fótbolta.