Deila sögum af tilefnislausum árásum

Menn lýsa því hvernig þeir hafa orðið fyrir árás á …
Menn lýsa því hvernig þeir hafa orðið fyrir árás á öldurhúsum. Sverrir Vilhelmsson

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason og tónlistarmaðurinn Pétur Ben eru á meðal þeirra sem segjast hafa orðið fyrir tilefnislausri líkamsárás af hálfu ókunnugra árásarmanna. Raunar segir Pétur Ben að tvívegis hafi verið ráðist á hann af tilefnislausu.

Sett var upp könnun á samfélagsvefnum Facebook þar sem fólk er beðið að deila því með almenningi hafi það orðið fyrir tilefnislausri árás af hálfu ókunnugra. Nær könnunin aðeins til karlmanna. Tugir manna hafa svarað kallinu og deilt sögu sinni eða staðfest að hafa orðið fyrir árás.

„Kýldur bylmingshöggi í magann fyrir utan 12 Tóna á leið heim í nóvemberbyl fyrir svona 5 árum. Ástæðan var að ég sagði nei við spurningunni „Hey, áttu sígó?“,“ segir Árni Þór Árnason, kynningarstjóri hjá Forlaginu.

Árni Víkingur lenti alvarlegri árás á öldurhúsi. „Það var kveikt í hárinu á mér fyrir 4 árum. Þá var ég á bar með örfáa bjóra undir beltinu, en brennuvargurinn búinn með mun meira og eflaust uppdópaður líka.“

Þá segist Ingimar Björn Eydal Davíðsson hættur að skipta sér af ölvuðum mönnum. „Kýldur í andlitið eftir að hafa beðið sótölvaðan fávita að hætta að káfa óumbeðið á vinkonu minni, og sleginn með brotnu skotglasi af manni sem við veittumst nokkrir að til að biðja um að sleppa kærustunni sinni úr hálstaki. Núna hugsa ég mig því miður tvisvar um áður en ég skipti mér af svona hegðun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert