Hópur ungra og upprennandi leikara hefur að undanförnu komið sér fyrir í Ræflavík. Það hafa þau gert undir stjórn leikstjórans Jóns Gunnars Þórðarsonar í Rýminu á Akureyri og verður leiksýningin Ræflavík frumsýnd 3. júlí. Verkið er eins konar samfélagsspegill þar sem ljósi er varpað á brýn málefni sem oft eru vandlega falin í skólum og á vinnustöðum, til dæmis samfélagsmeinið einelti.
Norðurbandalagið er leikhópur á Akureyri undir stjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar. Það er starfrækt á sumrin og hefur vakið töluverða athygli fyrir uppsetningu á áhugaverðum verkum. Síðasta sumar var leikritið Lúkas sýnt og í kjölfarið skapaðist heilmikil umræða um netníð og einelti á netinu. Norðurbandalagið státar af myndarlegum hópi leikara sem eiga það sameiginlegt að vera annaðhvort á leið í leiklistarnám, í leiklistarnámi eða hafa lokið því. „Það eru sjö leikarar, þrír af þeim úr Leiklistarskóla Íslands, tveir búnir að læra í New York, einn úti í Danmörku og ein stelpa úr Menntaskólanum á Akureyri,“ segir Jón Gunnar, sem bindur miklar vonir við þetta unga og efnilega fólk.
Í leikritinu Ræflavík fer hver og einn með eitt hlutverk og það er einn söguþráður. „Þetta fjallar um ungt fólk sem býr í Ræflavík, sem getur verið samheiti yfir marga smærri bæi á Íslandi. Þau eiga sér drauma um að komast í burtu og verkið er í raun samfélagsspegill um drauma þeirra, vonir og þrár. Þegar þú býrð á stað og lendir á vegg, hvort sem það er samfélagið, einelti eða vinnustaðurinn, og ert lokaður inni er spurning hvernig þú tekur á því. Því miður eru þeir margir sem finna ekki leið út úr því og aðra dreymir um það. Það má segja að við búum öll í okkar Ræflavík,“ segir Jón Gunnar. Verkið er byggt á leikritinu Punk Rock eftir breska leikskáldið Simon Stephens. Það hefur ekki verið sett upp hér á landi og þess vegna staðfærði Norðurbandalagið verkið og útkoman er Ræflavík. Boðskapurinn með verkinu er sterkur, að sögn leikstjórans. „Verkið er karakterdrifið verk, eins og Tsjekov skrifaði mörg sinna verka. Þá fylgist áhorfandinn með persónum og í fyrstu líta þær út fyrir að vera einhvern veginn á yfirborðinu en smám saman er því uppljóstrað hvaða persóna hver er, vegna þess að allir leika eina persónu í mismunandi aðstæðum,“ útskýrir Jón Gunnar, en allar persónurnar í Ræflavík opna sig einhvern tíma í verkinu á mismunandi hátt. „Það getur verið með einlægni, fegurð, fyndni, bröndurum eða með ofbeldi. Þannig kemur í ljós hver hinn innri maður er.“
Norðurbandalagið hefur sínar vinnureglur sem eru byggðar á breskum aðferðum, að sögn leikstjórans. „Við karaktergreinum verkið á einni viku, svo vinnum við og æfum í þrjár vikur og frumsýnum. Þetta gerist hratt og það er mjög skemmtilegt. Það er gaman að vinna undir tímapressu því það er eitthvað sem gerist í tímapressu. Allir eru á tánum allan tímann. Við verðum að gera þetta og það mun skila sér í orkunni á frumsýningunni eins og á æfingunum,“ segir Jón Gunnar.
Það er ýmislegt um að vera í menningarlífinu á Akureyri um þessar mundir og varla hægt að ganga um miðbæinn án þess að verða vitni að einhvers konar listsköpun. „Menningarlífið á Akureyri blómstrar á sumrin og það er virkilega gaman að því. Það er sérstaklega út af grasrótinni í myndlist og leiklist. Akureyrarbær er iðinn og duglegur við að styrkja ýmis verkefni og síðan gerir atvinnuátak bæjarins okkur þetta kleift því að bærinn greiðir leikurum Norðurbandalagsins laun og þannig hefur það verið síðustu þrjú árin. Norðurbandalagið er einn af mörgum hópum sem starfandi eru yfir sumarið og þetta er frábært framtak, bæði til þess að lífga upp á sumarið og sem atvinnuátak til að gefa fjölda fólks tækifæri til að vinna við það sem það hefur áhuga á, sanna sig, koma sér á framfæri og gera eitthvað virkilega gott yfir sumarið. Það mun skila sér yfir veturinn,“ segir Jón Gunnar.
Hugmyndin að Norðurbandalaginu byggir að hans sögn á þeim mikla krafti sem fólkið á Norðurlandi býr yfir. Sjálfur hefur Jón Gunnar leikstýrt víða á svæðinu, til dæmis í Freyvangsleikhúsinu, leikfélagi Hörgdæla og Leikfélagi Akureyrar, auk þess að hafa sett upp sjálfstæðar sýningar og stýrt Akureyrarvöku. „Þar hafa þessir kraftar verið sameinaðir. Hvort sem það eru tæknimenn, grafískir hönnuðir eða annað er mjög gaman á sumrin að sameina kraftana úr áhugafélögunum og þeim áhugamönnum sem eru að verða atvinnumenn og þeir verða að Norðurbandalaginu. Þetta eru leikarar framtíðarinnar,“ segir leikstjórinn Jón Gunnar Þórðarson.
Miða á sýningar Norðurbandalagsins má kaupa í verslun Eymundsson á Akureyri og við inngang Rýmisins að Hafnarstræti 73.