89% vilja að dómstólar skeri úr um verðtryggingu

heimilin.is

89% aðspurðra telja það mjög eða frekar mikilvægt að efnisleg niðurstaða fáist um það fyrir dómstólum hvort verðtrygging neytendalána hafi verið ólöglega framkvæmd frá árinu 2001, eins og fjallað er um í dómsmáli á vegum Hagsmunasamtaka heimilanna gegn Íbúðalánasjóði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagsmunasamtökum heimilanna en þau nýttu síðustu þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands til að kanna viðhorf almennings til mikilvægis þess að skorið verði úr um lögmæti útfærslu verðtryggðra húsnæðislána. 

„Þetta afgerandi viðhorf ætti vissulega að vera umhugsunarefni fyrir stjórnvöld og stjórn Íbúðalánasjóðs, sem beitt hefur ýmsum lagatæknilegum aðferðum til að hindra að dómsmál um verðtryggingu neytendalána sem Hagsmunasamtök heimilanna standa að baki fái efnislega meðferð. Málið var fyrst þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur um miðjan október árið 2012. Síðan þá hefur Íbúðalánasjóður tvisvar farið fram á að málinu yrði vísað frá dómi. Krafa um frávísun var samþykkt af dómstólum í fyrra skiptið, en seinni frávísunarkröfunni (í maí síðastliðnum) var hafnað af dómara héraðsdóms. Þegar málið fær loks efnislega meðferð er því liðið hátt á annað ár frá því það hóf göngu sína innan dómskerfisins.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað gagnrýnt framgöngu Íbúðalánasjóðs í þessu máli. Í mars síðastliðnum var skorað á æðsta yfirmann Íbúðalánasjóðs, Eygló Harðardóttur húsnæðismálaráðherra að leggja það fyrir stjórnendur sjóðsins að falla frá kröfu um frávísun málsins. Á það var ekki fallist en þrátt fyrir allt komst héraðsdómur að lokum að þeirri niðurstöðu að seinni frávísunarkrafan væri ekki á rökum reist og hafnaði henni.

Hagsmunasamtök heimilanna fagna að sjálfsögðu niðurstöðu þjóðmálakönnunar sem sýnir svo ekki verður um villst að almenningur stendur að baki baráttu samtakanna um að skorið verði úr um það hvort framkvæmd verðtryggingar hér á landi gangi gegn ákvæðum laga um neytendalán,“ segir í tilkynningu.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert