Neytendasamtökin segja ákvörðun Símans um að rukka fyrir allt gagnamagn sem fer um nettengingar viðskiptavina, hvort sem það er innlent eða erlent, upphal eða niðurhal ákveðna afturför. Víða erlendis geti neytendur valið að borga fast mánaðargjald með tilliti til nethraða óháð notkun.
Samtökin segja mjög sjaldgæft að þessi háttur sé hafður á í öðrum löndum og í þeim fáu löndun þar sem virðist rukkað miðað við gagnamagn hafa einnig verið í boði aðrar leiðir. „Hægt að færa rök fyrir því að eðlilegri þróun hefði verið að bjóða upp á þann valkost að hætta mælingum á gagnamagnsnotkun, rétt eins og nú er í mörgum tilvikum hætt að innheimta í samræmi við tímalengd símtala.“
Einnig benda þau á að fjarskiptaþróunin virðist vera á þá leið að internet skiptir sífellt meira máli og notkun þess er alltaf að aukast. Þessi breyting á mælingu gagnamagns geti því orðið sífellt meira íþyngjandi eftir því sem internetnotkun eykst.
Þá vísa samtökin til þess að þegar farið var að rukka fyrir erlent gagnamagn hafi verið vísað til legu Íslands og þess að dýrt sé að hafa sæstreng. Hvað varði innlenda gagnanotkun sé erfitt að sjá að slíkar röksemdir standist. „Að mati Neytendasamtakanna er hér um að ræða ákveðna afturför þegar kemur að internetnotkun og rökrétt næsta skref hefði verið að bjóða upp á aðra valmöguleika fyrir neytendur. Við viljum hvetja fyrirtæki til að auka valmöguleika neytenda og breyta ekki skilmálum sínum á þann veg sem Síminn hefur nú gert.“