Einn sá hlýjasti og úrkomusamasti

Lítið er um að fólk siti úti í rigningu.
Lítið er um að fólk siti úti í rigningu. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Júnímánuður var sérlega hlýr á landinu, einhver sá hlýjasti sem komið hefur síðan mælingar hófust. Víðast hvar um suðvestanvert landið – og víða vestan- og sunnanlands - var hann einnig í hópi úrkomusömustu júnímánaða sem vitað er um. Mat á tíðarfari var því nokkuð misjafnt. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands.

Meðalhiti í Reykjavik var 11,2 stig og er það 2,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,9 stigum ofan við meðallag síðustu 10 ára. Þetta er fjórði hlýjasti júní í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871, júní 2003 og 1871 voru ómarktækt hlýrri, en júní 2010 0,2 stigum hlýrri. Meðaltal júnímánaðar 1871 verður að teljast óöruggt.

Í Stykkishólmi var meðalhiti júnímánaðar 2,8 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en 1,5 stigi ofan meðallags síðustu 10 ára. Júní hefur aldrei verið svo hlýr í Stykkishólmi frá upphafi mælinga 1845. Á Akureyri var meðalhitinn 12,2 stig sem er 3,1 stigi ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 2,4 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Þetta er næsthlýjasti júní frá upphafi samfelldra mælinga á Akureyri 1881, meðalhiti í júní 1933 var 12,3 stig.

Í Reykjavík mældist úrkoman 115,8 mm og hefur aldrei mælst svo mikil síðan samfelldar mælingar hófust 1920. Úrkoma var líka mæld á árunum 1885 til 1907 og var úrkoma í júní einu sinni á því tímabili meiri en nú. Það var 1887 en þá mældist hún 127 mm í Reykjavík. Á Akureyri mældist úrkoman nú 24,2 mm. Það er 14 prósentum undir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Í Stykkishólmi mældist úrkoman í júní 50,6 mm og er það ríflega fjórðungur umfram meðallag, mun meiri úrkoma var í Stykkishólmi í júní 2006. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoman 67 mm og er það aðeins 66 prósent meðalúrkomu þar.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 17 daga í Reykjavík. Það er sex dögum umfram meðallag.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 115 og er það 46 stundum undir meðallagi sé miðað við 1961 til 1990, en 96 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Sólskinsstundir hafa ekki verið færri í júní í Reykjavík síðan 1995. Í fyrra voru þær þó aðeins 6 fleiri en nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka