„Við frekari lestur sáttmálans fór fram hjá mér enn og aftur að það eigi að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Að efla atvinnu á landsbyggðinni og hugsanlega færa til verkefni hjá hinu opinbera í þeim tilgangi jafngildir ekki heimild ráðherra til að flytja heilu stofnanirnar, nánast með manni og mús, hvert á land sem er.“
Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann bregst við þeim ummælum Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem gagnrýnt hafi áform um flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu til Akureyrar ættu að lesa stjórnarsáttmálann en Brynjar gagnrýndi áformin í gær.
Brynjar segir að ef orðalagið í stjórnarsáttmálanum réttlætti flutning heilu ríkisstofnananna þá opnaði það á ýmislegt: „Þá gæti forsætisráðherra alveg eins ákveðið að færa stjórnarráðið í heild sinni til Þórshafnar með tilvísun í stjórnarsáttmálann.“