„Gjörsamlega stefnulaus framkvæmd“

Í Borgartúni - Flaggstöng og ljósastaur fyrir framan bílastæðið gætu …
Í Borgartúni - Flaggstöng og ljósastaur fyrir framan bílastæðið gætu reynst hjólastólum Þrándur í götu. Af Facebook síðu Öryrkjabandalags Íslands

Bifreiðastæði fyrir hreyfihamlaða á hinu nýuppgerða Borgartúni í Reykjavík hefur valdið töluverðu hneyksli á Facebooksíðu Öryrkjabandalags Íslands. Svo virðist sem ljósastaur og flaggstöng komi til með að gera hjólastólanotendum erfitt fyrir við útgöngu á bílum og rútum.

„Ég get ekki annað sagt en að svo virðist sem borginni sé stjórnað af eintómum kjánum,“ sagði Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, sem er eitt af aðildarfélögum Öryrkjabandalags Íslands, um málið í samtali við mbl.is í dag.

„Svona eiga hlutirnir ekki að vera og það sér það hvert ómálga barn.“

„Það verður að vera meira pláss þarna á milli. Það væri ekkert að því að staurinn og skiltið væru á sitthvorum endanum en að troða þessu öllu í miðjuna þar sem annaðhvort fram- eða miðjuhurðin á bílnum verður opnuð er bara kjánalegt,“ sagði Bergur.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem sambærileg bílastæði líta dagsins ljós og vitnaði Bergur til óheppilega staðsetts bílastæðis við Hlemm í því samhengi. „Bílastæðið við Hlemm var tekið burt því það var svo vonlaust.“

Fögur fyrirheit en engar efndir

„Við erum búin að eiga marga fundi með borginni og þeir hafa bent á að við þurfum að hafa betra flæði milli okkar nefnda og stjórna og inn til þeirra. Þetta hefur verið lagað. Nú er komið að þeim að svara okkar kalli,“ sagði Bergur og tók fram að Sjálfsbjörg hefði oftsinnis ítrekað þörfina á að bæta stefnu borgarinnar um samgöngur hreyfihamlaðra.

„Borgaryfirvöld þurfa að vera spurð að því hvort borgin, og sveitarfélögin yfirhöfuð, þurfi ekki að taka sig endanlega saman í andlitinu. Við er um tilbúin til samstarfs ef þau eru tilbúin til að breyta sínum hugsunarhætti. Fögur fyrirheit eru gefin fyrir kosningar en efndirnar verða engar.“

Bergur ítrekaði mikilvægi þess að halda uppi umræðu um málið.

„Öll umfjöllun um þetta mál deyr á sama hátt. Það er talað við embættismann hjá borginni, það gerist eitthvað, eins og þegar bílastæðið við Hlemm var tekið burt, en það er ekki gefið nógu mikið eftir í þessum efnum.“ Stjórnvöld þurfi að móta skýra stefnu um málið. „Þessi framkvæmd virðist vera gjörsamlega stefnulaus.“

Bergur Þorri Benjamínsson - Varaformaður Sjálfsbjargar og fulltrúi í aðalstjórn …
Bergur Þorri Benjamínsson - Varaformaður Sjálfsbjargar og fulltrúi í aðalstjórn Öryrkjabandalagsins.
Í Borgartúni - Flaggstöng og ljósastaur fyrir framan bílastæðið gætu …
Í Borgartúni - Flaggstöng og ljósastaur fyrir framan bílastæðið gætu reynst hjólastólum Þrándur í götu. Af Facebook síðu Öryrkjabandalags Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert