Lýsing tapaði tveimur málum

Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing tapaði í dag tveimur málum sem lántakendur höfðuðu gegn því vegna endurútreiknings ólögmætra gengistryggðra lána. Með dómunum var fallist á málatilbúnað lántakendanna og þarf Lýsing að endurgreiða þeim viðbótarvexti sem fyrirtækið reiknaði sér.

Óumdeilt var í málunum að samningarnir fólu í sér lán í íslenskum krónum sem bundin voru ólögmætri gengistryggingu. Ágreiningurinn laut hins vegar að því hvort lántakendur geti borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiðslu vaxta af láninu fram til 5. júní 2010, en 16. júní 2010 dæmdi Hæstiréttur gengistryggingu lánanna ólögmæta.

Lýsing taldi við endurútreikning lánanna að vextir Seðlabanka Íslands ættu að gilda frá því lánið var tekið en ekki samningsvextir þar til lánið var dæmt ólögmætt. Á þetta féllst dómurinn ekki.

„Að mati dómsins er ljóst að aðstöðumunur var með aðilum þar sem stefndi [Lýsing] er fjármálafyrirtæki sem starfar á lánamarkaði og hafði þar boðið viðskiptavinum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu en ekkert er fram komið í málinu um að stefnandi, sem taldist neytandi í skilningi laga nr. 121/1994 um neytendalán, hafi búið yfir sérstakri þekkingu á gjaldeyrisviðskiptum. Stóð það því stefnda almennt nær að gæta að því að lánasamningurinn væri í samræmi við lög og bera áhættuna af því ef svo væri ekki,“ segir í niðurstöðu beggja málanna en dómur var kveðinn upp í þeim í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Sökum þessa var talið að Lýsing hefði með endurútreikningi sínum reiknað sér viðbótarvexti af lánunum. Einnig segir að með vísan til þeirra viðmiða sem ítrekað hafa verið lögð til grundvallar í fordæmum Hæstaréttar sé það álit dómsins að það standi Lýsingu nær en lántakendum að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu á umræddum vaxtagjalddögum lánsins.

Var Lýsingu því gert að greiða lántakendunum tveimur til baka þá viðbótarvexti sem fyrirtækið reiknaði sér.

Gera má ráð fyrir að dóminum verði áfrýjað til Hæstaréttar sem, að fengnu áfrýjunarleyfi, mun eiga lokaorðið.

Málin voru rekin af lögmannsstofunni Gengislán.is og segja forsvarsmenn hennar að um sé að ræða stóran sigur fyrir lántaka hjá Lýsingu sem í mörgum tilvikum hafa reynt að fá lánin sín endurreiknuð í 2 ár, án árangurs. Dómurinn sé einnig staðfesting á réttum útreikningsaðferðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert