Margir hafa lagt leið sína um þjóðgarð Snæfellsjökuls í dag. Ferðamennirnir láta rok og rigningu ekki á sig fá en sakna þess þó að sjá ekki jökulinn. Lágskýjað er á nesinu og hvílir hinn frægi Snæfellsjökull því undir skýjahulu í dag.
Eva Þorvaldsdóttir, landvörður, segir að veðrinu hafi heldur slotað á svæðinu eftir því sem leið á daginn en það sé þó ekki mjög spennandi.
„Við Íslendingar teljum þetta ekki aftaka veður,“ segir hún. Ekki eru allir ferðamennirnir vel búnir og eru sumir aðeins í þunnum úlpum. Þá hafa hátt í hundrað manns greitt fyrir aðgang að tjaldstæðinu á Arnarstapa í dag.
Að sögn lögreglunnar í Ólafsvík hefur enginn lent í vandræðum vegna veðursins.
Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn
Sunnan 10-18 m/s og rigning, mikil úrkoma á S-verðu. Hvöss suðaustanátt SA-lands og á Austfjörðum seint í kvöld og nótt, annars hægari vindur. Suðlæg eða breytileg átt 8-13 á morgun, en norðvestan 10-18 V-til, hvassast við ströndina. Víða rigning og hiti 7 til 16 stig, hlýjast NA-lands.