Sex einkaþotum var lagt á Reykjavíkurflugvelli í morgun. Það er ekki metfjöldi á þessum árstíma að sögn Jóns Karls Einarssonar, sem vinnur hjá Flugvallaþjónustunni á Reykjavíkurflugvelli, en hann segir að sumartíminn sé sprækur tími fyrir einkaþotuumferð, sem er afar árstíðabundin. Jón gat ekki staðfest hvort ein þotan hafi verið sú sem flutti eigenda snekkjunnar Itasca til landsins í morgun.
Ára á milli segir Jón að umferð einkaþotna sé nokkuð stöðug á vellinum. Efnahagshrunið hafi ekki bitnað tilfinnanlega mikið á umferðinni. „Að sjálfsögðu dróst umferðin eitthvað saman. Íslendingar verða samt að átta sig á því að þótt kreppan hafi skollið illa á okkar útrásarvíkingum og þeir hafi hætt að ferðast á sínum einkaþotum er fólk úti í heimi sem á ennþá pening og straumurinn af því stendur alltaf í stað,“ sagði hann í samtali við mbl.is í dag.
Það er allur gangur á því hverslags fólk kemur til landsins á einkaþotum, allt frá stórstjörnum og fólki í viðskiptaleiðöngrum til fólks sem býr að góðum arfi og fólk sem hyggst stunda laxveiði á landinu, svo dæmi séu tekin. Að sögn Jóns Karls eru þoturnar oftast aðeins í nokkra daga á vellinum og sjaldnast meira en viku.