Bjarni Friðriksson, fyrrum júdókappi og bronshafi á Ólympíuleikunum, varð vitni að óvenjulegu háttalagi stara á bílskúrsþaki sínu, en fuglinn gaf tveimur ungum maríuerlu æti.
„Ég var að fá mér kaffisopa og lít út um gluggann og sé starann vera að gefa ungunum. Mér fannst skrítið að sjá unga, sem ég hélt að væru ófleygir, uppi á bílskúrsþakinu. Svo fer ég að fylgjast með þeim og finnst ungarnir svo ólíkir staranum,“ segir Bjarni og bætir við að hann hafi gripið myndavélina um leið og ljóst var að um maríuerluunga var að ræða.
Starinn sat ofan á þakinu allan daginn og gaf ungunum í gogginn, að sögn Friðriks.
Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur segir þetta vera algjört einsdæmi hjá umræddum fuglum. „Þetta er mjög óvenjulegt og ég kannast ekki við svona fósturbörn og fósturforeldri. Eina ástæðan sem kemur upp í hugann er að starinn hafi yfirtekið maríuerluhreiður eða einhverra hluta vegna klakið út maríuerlueggjum og síðan alið upp ungana,“ segir Jóhann Óli.
Maríuerlur og starar verpa stundum á svipuðum stöðum og segir Jóhann Óli að þetta gerist stundum hjá öndum sem verpa í hreiður hvor annarrar. „En algjört einsdæmi hjá umræddum fuglum. Skrítið og skemmtilegt hvernig náttúran hegðar sér stundum,“ segir Jóhann Óli.