„Aðferðafræðin skiptir öllu máli“

Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki.
Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikið er rætt um flutning ríkisstofnana á landsbyggðina þessa dagana vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Síðustu ár hafa ýmsar stofnanir á vegum hins opinbera verið fluttar til með þeim hætti en þar á meðal eru til að mynda Byggðastofnun og Matvælastofnun en sú síðarnefnda varð til með sameiningu nokkurra minni stofnana.

Flutningur Byggðastofnunar til Sauðárkróks hófst árið 1998 þegar þróunarsvið stofnunarinnar var flutt til bæjarins. Með þeim flutningi fylgdu fimm störf. Sumarið 2001 var stofnunin í heild síðan flutt norður. Um 20 manns störfuðu þá hjá Byggðastofnun í Reykjavík og hættu allir starfsmennirnir utan einn, fjármálastjóra stofnunarinnar, sem flutti til Sauðárkróks. Hins vegar fóru þeir starfsmenn, sem starfað höfðu hjá Byggðastofnun í Reykjavík, norður og voru þar í nokkurn tíma á meðan verið var að koma starfseminni af stað á nýjum stað að sögn Aðalsteins Þorsteinssonar, forstjóra stofnunarinnar.

„Þannig að þetta gekk allt skaplega fyrir sig. Það varð ekkert rof í starfseminni og ég vil meina að viðskiptavinir stofnunarinnar og samstarfsaðilar hafi ekki orðið fyrir neinum truflunum vegna þessara breytinga. Og auðvitað er hægt að gera þessa hluti þannig. Aðferðafræðin skiptir öllu máli,“ segir hann. Heilmiklar upplýsingar séu til um það hvernig til hafi tekist við flutning ríkisstofnana á milli landshluta sem hægt væri að taka saman.

Tók á sig mynd yfir lengri tíma

Hvað Matvælastofnun varðar var Landbúnaðarstofnun, forveri stofnunarinnar, upphaflega sett á laggirnar með lögum árið 2005 en hún flutti ekki á Selfoss fyrr en haustið 2006. Síðan tók stofnunin smám saman á sig mynd. Stofnunin fékk heitið Matvælastofnun árið 2008 en þá komu til starfa hjá henni starfsmenn af matvælasviði Fiskistofu og matvælasviði Umhverfisstofnunar. Áður hafði til að mynda embætti yfirdýralæknis sameinast stofnuninni.

„Þetta hefur þannig verið að taka á sig mynd yfir lengri tíma. Þegar þetta byrjar á sínum tíma voru margar minni stofnanir sameinaðar í eina. Þetta var svolítið tvístrað og ekki á einum stað. Eins og staðan er í dag þá starfa hjá Matvælastofnun um það bil 80 starfsmenn. Þar af eru tæplega 50 á Selfossi. Rétt rúmur helmingur þeirra býr á Suðurlandi en einhverjir rúmlega 20 sem keyra á milli,“ segir Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar.

Vitanlega hafi ekki allir verið ánægðir með þessar breytingar. Hins vegar hafi stofnunin ekki misst starfsmenn vegna þeirra þó einhverjir hafi verið óánægðir. Það hjálpaði að Matvælastofnun væri ekki staðsett langt frá höfuðborgarsvæðinu. Sá möguleiki væri þar með fyrir hendi að aka á milli. Jón tekur undir það að aðferðafræðin skipti miklu máli í þessu sambandi. Hvernig staðið væri að slíkum breytingum.

Matvælastofnun á Selfossi.
Matvælastofnun á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert