„Ríkisstjórnin hefur engin áform um að skattleggja „auðugustu einstaklinga og fjölskyldur landsins“ umfram það sem almenn skattlagning tekna og neyslu gerir ráð fyrir,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, í skriflegu svari við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstri grænna.
Steingrímur spurði hvort vænta megi þess að fjármálaráðherra endurskoði afstöðu sína til niðurfellingar auðlegðarskatts „í ljósi þess að hann færði fram efasemdir um lögmæti skattheimtunnar sem röksemd fyrir afnámi skattsins, en Hæstiréttur hefur nú úrskurðað skattinn lögmætan.“
Í svari Bjarna segir að allir eignarskattar séu háðir þeim annmarka að ekki þurfi að vera neitt samband milli álagningar slíkra skatta og greiðslugetu þess sem skatturinn er lagður á. Auðlegðarskatturinn leggist í mörgum tilvikum á tekjulágt eldra fólk sem býr í skuldlausu húsnæði. „Niðurstaða Hæstaréttar hefur engin áhrif á þá ákvörðun að leggja þessa skattheimtu af. Benda verður á að veigamikil forsenda fyrir mati dómsins á lögmæti auðlegðarskattsins er að hann er tímabundinn. Það er því alls óvíst að Hæstiréttur hefði komist að sömu niðurstöðu ef um væri að ræða ótímabundinn skatt.“
Frétt mbl.is: Auðlegðarskattur ekki ólögmætur