Sjálfgefið að eiga bíl við greiðslumat

Samkvæmt viðmiðum Velferðarráðuneytisins frá febrúar 2014 eru útgjöld vegna bifreiðar …
Samkvæmt viðmiðum Velferðarráðuneytisins frá febrúar 2014 eru útgjöld vegna bifreiðar rúmlega 74 þúsund kr. á mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

„Við viljum benda á stærri myndina, hvað það er ótrúlega galið að þetta sé sjálfgefið viðmið í greiðslumatinu,“ segir Dagný Ósk Aradóttir Pind úr Samtökum um bíllausan lífstíl,  um neysluviðmið velferðarráðuneytisins. Í viðmiðunum er gert ráð fyrir því að útgjöld fyrir einstakling vegna bifreiðar séu 74.131 kr. á mánuði. Samtökin segja að þessum viðmiðum sé beitt jafnvel þótt að fólk eigi ekki bifreið. Til samanburðar miðar Umboðsmaður skuldara við að barnslaus einstaklingur greiði 45.080 kr. í sömu útgjöld.

Í yfirlýsingu frá samtökunum er þetta fyrirkomulag gagnrýnt. „Því fer fjarri að allir þeir sem vilja kaupa sér eigið húsnæði eigi og reki bíl. Í slíkum tilfellum notast fólk við hjól, tvo jafnfljóta eða almenningssamgöngur sem samgöngutæki,“ segir í yfirlýsingunni.

Segja að kostnaðurinn geti aldrei verið svona hár

Á Facebook hóp samtakanna hefur myndast mikil umræða um greiðslumatið. Þar er tekið að dæmi einstaklingur sem hefur átt þrjú reiðhjól á tíu ára tímabili og sinnt öllu nauðsynlegu viðhaldi á hjólunum á þeim tíma. Meðalkostnaður þessa einstaklings er um 2.000 kr. á mánuði að mati samtakanna. „Kostnaðurinn getur auðvitað verið ýmis konar og ólíkur milli einstaklinga, en við getum fullyrt að hann fer aldrei upp í 74 þúsund krónur á mánuði,“ segir í yfirlýsingunni.

„Mér finnst skrítið að það sé gert ráð fyrir því að allir eigi bíl og svo er þessi tala, 74 þúsund kr., svo rosalega há. Hvað ertu eiginlega að keyra mikið?“ spyr Dagný Ósk.

Samtökin benda á að græna kortið sé dýrasti valkostur þeirra sem nota Strætó daglega á höfuðborgarsvæðinu. Kortið kostar 9.300 kr. á mánuði. „Það sjá allir sem sjá vilja að kostnaðurinn við þessa samgöngumáta kemst ekki nálægt því sem það kostar að eiga og reka bíl. Engu að síður virðast fjármálastofnanir ekki í einhverjum tilvikum vilja taka þetta með í reikninginn þegar þær taka sér úrskurðarvald um framtíðarbúsetu viðskiptavina sinna.“

Bankarnir vísa gagnrýninni á bug

Dögg Hjaltalín, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir að þetta sé ekki rétt hjá samtökunum. Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Dögg að við útreikning á framfærslu einstaklings miði bankinn við 60.000 kr. útgjöld vegna reksturs á bifreið.

Eigi einstaklingur ekki bifreið miðar bankinn við 9.300 kr. vegna samgöngukostnaðar á hvern einstakling. Sú upphæð er jafnhá verði á græna korti Strætó. Dögg tekur dæmi um að viðmiðið fyrir hjón með eitt barn sé því 27.900 kr. á mánuði.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir að bankinn styðjist við reglugerð nr. 920/2013 um lánshæfis- og greiðslumat við útreikning neysluviðmiðs. Þar segir í 8. gr. að reki lántaki bifreið þá skal miða við að áætlaður rekstrarkostnaður hennar á ársgrundvelli sé að lágmarki 720.000 kr. Miðast bankinn þá við 60.000 kr. að viðbættu 10% álagi. „Reglugerð neytendalaganna gefur til kynna að styðjast skuli við umrædd viðmið en 10% álagið er ákvörðun Landsbankans,“ segir Kristján.

Hann segir að ef viðkomandi eigi ekki bifreið er stuðst við helming af rekstrarkostnaði bifreiða samkvæmt reglugerð ráðuneytisins.

Hann telur umræðuna byggða á röngum forsendum. „Umræðan virðist beinast að því að fólk með lágar tekjur fái ekki nógu há lán. Staðreyndin er sú að lánsmatið er ekki vandamálið, heldur tekjurnar, þróun húsnæðisverðs og leiguverðs. Of há lán miðað við tekjur leysa tæpast nokkurn vanda,“ segir Kristján, sem bendir einnig á að fasteignalán séu til margra áratuga og því sé sameiginlegur hagur bæði lántaka og lánveitanda að ætla sér ekki um of.

Ekki bárust svör frá Arion banka í tæka tíð við vinnslu fréttarinnar. Á vefsíðu bankans má þó finna reiknivél sem reiknar út greiðslugetu einstaklinga. Þar notar bankinn 60.000 kr. sem viðmið um útgjöld vegna bifreiðar.

„Samtök um bíllausan lífstíl gagnrýna þá stefnu að forsenda þess …
„Samtök um bíllausan lífstíl gagnrýna þá stefnu að forsenda þess að geta eignast þak yfir höfuðið sé skuldbinding um að halda áfram að stuðla að hlýnun jarðar,“ segir í yfirlýsingu Samtaka um bíllausan lífstíl. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert