„Ég var að spjalla við vin minn með fangið fullt og lét símann frá mér ofan á bílinn hans. Svo sneri ég mér annað og hann ók á brott. Ég fattaði svo 20 mínútum seinna að síminn hafði verið ofaná. Við eyddum síðan öllu laugardagskvöldinu að leita að símanum og veskinu,“ segir Jón Óli Ómarsson sem stendur í þakkarskuld við heiðvirðan borgara.
Um var að ræða síma í hulstri sem einnig geymir seðla- og kortaveski. Í veskinu voru 50 þúsund krónur auk kreditkorta og fyrirtækjakorta. „Mig var farið að gruna að sá sem fyndi veskið myndi hirða það, því þá væri hann með góða summu í höndunum,“ segir Jón Óli, sem er framkvæmdastjóri bílaleigunnar Go Car Rental.
Hann hringdi tvisvar upp í munavörslu lögreglunnar, en veskið hafði ekki skilað sér þangað.
Á þriðjudaginn kom svo maður til hans í vinnuna í Hafnarfirði sem hafði fundið veskið, og í því var síminn og öll fjárhæðin. Skjárinn á símanum var brotinn en annars var hann í fínu lagi.
„Maðurinn hafði farið heim til mín í Reykjavík, en alltaf komið að læstum dyrum. Í veskinu voru ekki miklar upplýsingar til viðbótar, en hann fletti upp fyrirtækinu og fann heimilisfang þess í Hafnarfirði og ákvað að gera eina tilraun til viðbótar að finna eigandann.
Jón Óli stakk upp á því að fundarmaðurinn fengi upphæðina í veskinu sem fundarlaun. Það tók maðurinn ekki í mál. Þá afþakkaði hann einnig rauðvínsflösku sem Jón Óli bauð honum.
Maðurinn sem fann veskið, segir þetta allt snúast um að hafa augun opin. „Þetta er ekki fyrsta veskið sem ég finn. Sumir gætu gengið framhjá 5000 kalli úti á götu, en svo kemur einhver með opin augun og finnur hann.“