Kanadíski tónlistarmaðurinn Neil Young er kominn til landsins, en hann kom með einkaflugvél sem lenti á Keflavíkurflugvelli kl.19 í kvöld samkvæmt heimildum mbl.is. Búið er að stilla upp fyrir hann og hljómsveitina Crazy Horse í nýju Laugardalshöllinni þar sem æfingar munu fara fram yfir helgina.
Young, sem er þekktur fyrir mikla vinnusemi, mun væntanlega vilja stilla saman strengi sveitarinnar, en tónleikarnir í Höllinni á mánudag verða þeir fyrstu í tónleikaferðinni sem lýkur í ágúst. Líklegt þykir að þetta verði síðasta tónleikaferð Youngs með Crazy Horse, en samstarfið spannar hátt í fimm áratugi og þykir sveitin kalla fram það besta í Young.
Sem kunnugt er heltist bassaleikarinn Billy Talbot úr lestinni fyrr í vikunni vegna heilblóðfalls og mun Rick Rosas koma í hans stað. Young er búinn að bóka Höllina yfir helgina þar sem gert er ráð fyrir að æfingar fari fram en engum sögum fer af því hvort eitthvað annað sé á dagskrá hjá goðsögninni.