Fjórða lægðin á leiðinni

Almennilegir, heilir sumardagar eru ekki í kortunum á allra næstu …
Almennilegir, heilir sumardagar eru ekki í kortunum á allra næstu dögum þó kominn sé júlí. mbl.is/Golli

„Það er svo sem ekkert lát á leiðindum í veðrinu, þótt það hafi skipt um takt,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur við vongóðan blaðamann. Fjórða lægðin í röð er á leið yfir landið á laugardag svo fyrsta helgin í júlí verður hreint ekkert glæsileg til ferðalaga. „Þetta er hálfgert skítviðri,“ segir Einar.

Segja má að lægðamyndunin við landið í byrjun þessarar viku hafi brotið niður hagfellda veðurstöðu sem hafði ríkt í margar vikur og leiddi af sér einn hlýjasta júnímánuð sem sögur fara af. „Hér var hár þrýstingur og hægfara aðstreymi af hlýju lofti sunnan úr höfum, sem gerði að verkum að það var ósköp hlýtt og gott á Norður- og Austurlandi en milt og rakt sunnan- og vestantil,“ segir Einar.

„Núna erum við komin í lágan þrýsting og vindasama tíð með svölu veðri og vætusömu. Þetta snýst nokkurn veginn eins mikið á haus og hugsast getur, nema það getur enn orðið kaldara, þótt það sé svalt. Svo eru horfurnar býsna áhugaverðar, eða þannig.“

Hvasst og úrkoma um allt land á morgun

Framan af viku gengu tvær lægðir á beit yfir landið og sú þriðja í kjölfarið sem gekk inn í hinar tvær svo þær sameinuðust. Þessa stundina er lægðarmiðjan yfir landinu miðju, sunnan Langjökuls, þar sem hún snýr kringum sig skýja- og úrkomubökkum með hvössum vindi vestanmegin við sig en flatneskjulegra veðri til austurs. 

Lágþrýstimet voru slegin á nokkrum stöðum, eftir því sem fram kemur á Hungurdiskum Trausta Jónssonar veðurfræðings, þótt ekki félli metið á landsvísu í júlí eins og stefndi í. 

Að sögn Einars mun þessi sama lægð grynnast hægt og bítandi. Hún fer til suðurs og dregur með sér norðaustanstæðan vindstreng yfir landið, svo það verður góður strekkingur eða allhvass vindur um landið allt á morgun, þó sýnu hvassast um norðvestanvert landið, Vestfirði, Breiðafjörð og Snæfellsnes og einhver væta í öllum landshlutum.

Langt dauðastríð lægðar – og önnur á leiðinni

Dauðastríð lægðarinnar gæti orðið langt, allt upp undir viku, en þar með er lægðasyrpunni þó alls ekki lokið því Einar færir þau tíðindi að fjórða lægðin sé á leiðinni yfir landið á laugardaginn og sú verði líka óvenjudjúp miðað við árstíma. 

„Hún nálgast okkur úr annarri átt, frá Færeyjum með stefnu á norðaustanvert landið“ og með henni talsverð úrkoma sem kemur eiginlega aftan að okkur. Norðlendingar hafa nú sloppið betur við úrkomuna en Sunnlendingar það sem af er, en norðanáttinni fylgir rakt loft svo það rignir talsvert mikið á laugardag á Norðurlandi.“

Sunnlendingar geta þá glaðst yfir því að á leið yfir hálendið að norðan mun loftið þorna nokkuð svo draga mun úr rigningu á Suðurlandi vestan Mýrdalssands. „En hinsvegar verður leiðindavindur á öllu landinu á laugardaginn, strekkingur og jafnvel hvassviðri,“ segir Einar.

Óvissa í langtímaspá en engir sumardagar á næstunni

Á sunnudag ætti vindurinn að ganga að miklu leyti niður og verður þá komið ágætisveður á Suðurlandi að sögn Einars, norðanáttin varir enn en verður hægari og  gæti jafnvel sést til sólar annað veifið. Hitinn kemst þó tæplega upp fyrir 10 stigin á sunnudag, og á laugardag verður hann líklega ekki nema 5-10 stig á landinu.

Aðspurður hvort einhver von sé um sólbað á næstunni segir Einar að langtímaspám beri ekki saman um hvað gerist eftir helgi.

„Langtímaspárnar eru eiginlega út og suður ennþá. Sumar gera meira að segja ráð fyrir að það verði enn önnur svona lægð sem komi aftan að okkur strax í kjölfar hinnar á sunnudag eða mánudag, en aðrar spár gera ráð fyrir að þetta rói sig heldur í næstu viku.“

Of snemmt er því að segja til um það með nokkurri vissu hvað sé í vændum eftir fjórðu lægðina og líklega best að stilla væntingunum í hóf ef marka má Einar. „Sólin verður alltaf að gægjast fram úr skýjunum annað slagið á Suðurlandi, en það er ekki að sjá að það komi heilir, samfelldir, góðir sumardagar.“

Sjá einnig:

Óvenjulegð lægðasyrpa yfirvofandi

Lægðirnar hringsóla yfir landinu

Veðurvefur mbl.is

Rigning og rok í Austurstræti í Reykjavík.
Rigning og rok í Austurstræti í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Rigning í Reykjavík.
Rigning í Reykjavík. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka