Brotist var inn í bíl víkingsins Benedikts Kristjánssonar í gær þar sem hann stóð í Hamrahlíð í Kópavogi og úr honum stolið forláta víkingasverði sem hann notar á víkingasýningum. Benedikt segir sverðið hafa mikið tilfinningalegt gildi fyrir sig en það geti varla nýst þjófunum á nokkurn hátt.
Sverðið sem er úr stáli er ekki beitt og eingöngu notað á sýningum á víkingahátíðum. Það var einmitt þess vegna sem Benedikt var með það meðferðis, hann var á leið á víkingahátíð um helgina á Þingeyri. Lítill markaður er fyrir sverð sem þetta á Íslandi enda eiga flestir þeir sem taka þátt í víkingasýningum sitt eigið sverð og þykja ólíklegir til að kaupa þýfi.
„Það er einmitt það sem kom mér mest á óvart, sverðið nýtist þeim ekki neitt. Ekki nema þeir myndu brýna það, en ég held að það sé mjög erfitt. Maður brýnir ekki stál svo auðveldlega. Það hefur því ekki gildi fyrir aðra en þá sem eru í því að endurgera víkingabardaga og taka þátt í sýningum,“ segir Benedikt en einnig var stolið úr bílnum víkingabelti hans.
Benedikt er í víkingafélaginu Rimmugýg og segir að flestir í því eigi sitt eigið sverð. Þjófarnir ættu því að eiga erfitt með að selja sverðið. „Það eina sem mér dettur í hug er að því hafi verið stolið til að prýða vegg þjófanna. Þetta er auðvitað flott á vegg en þegar menn kaupa sverð til að hengja upp þá eru þau ekki hönnuð eins og þetta, til að nota í endurgerðarbardögum. Þetta sverð er sérstaklega hannað fyrir það.“
Þá kemur þetta sérstaklega illa við Benedikt því margra mánaða biðlisti er eftir samskonar sverði. „Þetta er breskur framleiðandi og er nokkurs konar Rolls-Royce sverðanna.“