Unginn vildi í fóstur hjá önd

Helga Finnsdóttir, starfsmaður Ráðhússins, veður að unganum.
Helga Finnsdóttir, starfsmaður Ráðhússins, veður að unganum. Ljósmynd/Ráðhús Reykjavíkur

Starfsfólk mannréttindaráðs gerði tilraun til þess að bjarga einmana andarunga á Tjörninni á dögunum. Starfsfólkið hafði komið auga á sex yfirgefna andarunga við Ráðhús Reykjavíkur nokkrum dögum áður, en nú var aðeins einn eftir.

Margir höfðu lýst yfir áhyggjum sínum vegna ungans svo starfsfólk Ráðhússins ákvað að bregðast við. Einn starfsmannanna klæddi sig í vöðlur og gerði tilraun til að ná unganum og koma honum á betri stað. Unginn hinsvegar flúði undir mosavegg Ráðhússins svo björgunin mislukkaðist.

„Það var búið að hringja í bæði Húsdýragarðinn og meindýraeyði en ég ákvað bara að drífa mig í vöðlurnar og reyna að fanga hann en það gekk ekki, þeir eru svo duglegir að kafa. Daginn eftir sáu húsverðirnir hann með „mömmu“, vilja þeir meina,“ segir Helga Finnsdóttir, starfsmaður Ráðhúss Reykjavíkur.

Heyrst hefur að stokkandarsteggur hafi tekið ungann að sér og sé hann því kominn í öruggt skjól. 

Starfsfólk Ráðhússins minnir á að ekki er ráðlegt að gefa öndunum í Tjörninni brauð á þessum árstíma því það laði að sílamáva sem eigi það til að éta litlu ungana.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er nú hægt að kjósa um hvort ráðlegt sé að setja upp sef á bakka Tjarnarinnar til verndar ungum. Ungarnir gætu fundið skjól í sefinu fyrir sílamávum.

Andarungi ásamt nýju „móður sinni“ sem er reyndar steggur ef …
Andarungi ásamt nýju „móður sinni“ sem er reyndar steggur ef marka má þessa mynd. Ljósmynd/Ráðhús Reykjavíkur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert