Ákæran er „mikið áfall“

Páll Matthíasson, forstjóri LSH
Páll Matthíasson, forstjóri LSH mbl.is/Golli

Nýleg ákæra ríkissaksóknara á hendur Landspítala og hjúkrunarfræðingi á spítalanum er okkur öllum áfall.“ Þetta ritar Páll Matthíasson, forstjóri landspítalans í nýjasta forstjórapistli sínum á vef spítalans. 

Greinir hann frá því að hann hafi í kjölfar ákærunnar haldið tvo opna starfsmannafundi þar sem hann flutti ávörp. Í ávörpunum segir hann að rannsókn lögreglunnar á máli hjúkrunarfræðingsins sem grunaður er um manndráp af gáleysi, sé frábrugðin því sem áður hefur sést, og sú ákvörðun að vísa málinu til ríkissaksóknara sem síðan ákvað að gefa út ákæru. 

„Þannig að mál þetta hefur nokkuð verið til umfjöllunar í fjölmiðlum - sérstaklega frá ákæru - og hefur þróast yfir í almennari umræðu um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustunni og meðferð
þeirra sem er mun betra en æsifréttamennska um eitthvert eitt einstakt mál. Svona umræða er tiltölulega ný af nálinni á Íslandi en á sér lengri sögu í mörgum nágrannalöndum okkar,“ sagði Páll í ávarpinu. 

„Þrátt fyrir þennan breytta veruleika og óvissu eigum við sem heilbrigðisstarfsmenn ekki annarra kosta völ en að sinna okkar verkefnum áfram af fagmennsku og umhyggju - um leið og við berjumst fyrir breyttu lagaumhverfi og verjum störf okkar. Partur af öryggismenningu er að tala um það sem miður fer og læra af því. Það er mikilvægt að við kvikum ekki frá því að halda áfram innleiðingu öryggismenningar og stöðugum umbótum á starfseminni með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Það er sú leið sem sjúklingar okkar vænta að við förum og sem þróuð heilbrigðiskerfi hafa valið. Það er okkar leið.“

Ávarp Páls í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert